„Þetta gerðist hérna rétt fyrir klukkan 10 í morgun. Það hefur líklega verið eitthvað lítið barn sem kúkaði í laugina. Við lokuðum henni í fjóra tíma,“ segir Fríða Björk Einarsdóttir, vaktstjóri í Vesturbæjarlaug.
Nútíminn greindi frá því fyrr í dag að sundlauginni í Vesturbæjarlaug hefði verið lokað vegna kúks í lauginni. Í tilkynningu sem hékk á hurð í afgreiðslu laugarinnar sagði „Því miður var kúkað í laugina svo hún er lokuð til kl 14:00 en pottar eru opnir.“
Fríða Björk segir svona atvik ekki algeng en þegar þau koma upp sé klór settur í laugina og hreinsibúnaður vinni svo sína vinnu.
Aðspurð segir hún laugargesti hafa tekið vel í uppákomuna. „Það hafa allir skilning á því að lítil börn geta misst frá sér eitthvað.“
Hér að neðan má sjá Instagram-færslu eins sundlaugargests.