Man frostaveturinn mikla

Lárus Sigfússon man tímana tvenna.
Lárus Sigfússon man tímana tvenna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég man fyrst eftir mér árið 1918. Það var kallað frostaveturinn mikli. Hefurðu heyrt talað um hann?“

Þetta segir Lárus Sigfússon, spurður hvenær hann muni fyrst eftir sér, en hann er 103 ára síðan í febrúar. 

„Húnaflóinn var allur fullur af hafís, sérstaklega Hrútafjörður og Miðfjörður. Frostið var mest eftir áramótin og hélt áfram alveg fram í mars. Ísinn dugði fram á vorið. Til allrar hamingju hefur annað eins ekki átt sér stað síðan.“

Svo kalt hefur honum ekki orðið síðan. Sem betur fer. Lárus Sigfússon gerðist ungur bóndi í Hrútafirði en brá búi um fertugt vegna veikinda. Flutti þá suður og gerðist sölumaður og síðar leigu- og ráðherrabílstjóri áður en hann sneri sér aftur að búskap. Hann hætti að keyra bíl 100 ára og fór síðast á hestbak ári síðar. Nú fer hann ferða sinna á rafskutlu, að því gefnu að sambýliskonan vísi veginn. Sjón Lárusar er nefnilega farin að daprast. 

Lárus ólst upp á Stóru-Hvalsá í Hrútafirði og hafði fjölskyldan til hnífs og skeiðar. „Já, það voru ekki neinar áhyggjur. Þótt það kallaðist fátækt var það í raun og veru ekki fátækt. Hvernig getur fólk verið fátækt þegar það er að ala upp börn, sinna skepnunum og er með sjóinn við höndina? Það var fiskur í sjónum í Hrútafirði nánast allt árið; að minnsta kosti fram að jólaföstu og svo kom hann aftur með vorinu.“

– Hvenær fluttirðu að heiman?

„Þegar ég byrjaði að búa. Það var árið 1937. Ekki kom annað til greina en að verða bóndi og ég hóf búskap á bæ í sveitinni, Kolbeinsá. Maður fór ungur að huga að alls konar hagræði fyrir landbúnaðinn, svo sem að kynbæta skepnur. Með búskapnum var ég vetrarpóstur frá Stað í Hrútafirði að Hólmavík. Bar póstinn út á hestum, frá tveimur og upp í fjóra. Það var ekki alltaf auðvelt starf, maður lenti reglulega í vondum veðrum og þurfti að nýta kraftana til hins ýtrasta. Þá var ég um tíma formaður bæði hestamannafélagsins og ungmennafélagsins í sveitinni. Eftir tuttugu ár á Kolbeinsá flutti ég til Reykjavíkur.“

– Hvað kom til?

„Það kom ekki til af góðu. Ég fékk heilahimnubólgu og átti að drepast en gerði ekki. Ég var lengi að ná mér eftir þau veikindi og treysti mér ekki til að halda búskap áfram. Við komuna til Reykjavíkur 1956 byrjaði ég að vinna hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, sem sölumaður í Gefjun. Seldi karlmannsföt. Síðar ferðaðist ég vítt og breitt um landið og seldi. Það gekk ágætlega. Ég seldi líka allar iðnaðarvörurnar frá Akureyri sem nutu mikilla vinsælda. Úrvalsvörur margt af því en núna er það allt útdautt.“

– Mér skilst að þú hafir alltaf verið mikill bíladellukarl.

„Það er alveg rétt. Ég hef eignast marga bíla um dagana; yfir hundrað skilst mér, lögreglan lét mig vita af því. Samt var ég aldrei sektaður. Ég held að það sé þokkalega af sér vikið en ég hætti ekki að keyra fyrr en ég var orðinn hundrað ára. Ég var alltaf að kaupa bíla og gera þá upp, mér til ánægju og yndisauka. Ég seldi síðasta bílinn að verða hundrað ára. Hann fór til kaupfélagsstjóra norður á Ströndum.

– Ertu pólitískur?

Já, en ég er löngu hættur að skipta mér af pólitíkinni. Ég var settur inn í hana ellefu ára fyrir norðan. Það er saga að segja frá því. Kosningar stóðu fyrir dyrum og pabbi sálugi tók mig með sér á fund í Hrútafirði. Þegar fundarritari var að skrifa fundargerðina kom í ljós að 13 fullorðnir menn voru á fundinum. Það þótti afleitt enda 13 algjör óhappatala. Þá gall í fundarritaranum: Heyrðu, við höfum Lárus bara með. Og þar með vorum við orðnir fjórtán og ég skráður í flokkinn.“

– Hvaða flokkur var það?

„Framsóknarflokkurinn og ég hef verið í honum síðan. Þeir eru samt löngu hættir að tala við mig sem flokksmann. Ég er orðinn úreltur.“

Nánar er rætt við Lárus í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Lárus við einn af fjölmörgum bílum sínum; hann hefur átt …
Lárus við einn af fjölmörgum bílum sínum; hann hefur átt yfir hundrað um dagana.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert