Man frostaveturinn mikla

Lárus Sigfússon man tímana tvenna.
Lárus Sigfússon man tímana tvenna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég man fyrst eft­ir mér árið 1918. Það var kallað frosta­vet­ur­inn mikli. Hef­urðu heyrt talað um hann?“

Þetta seg­ir Lár­us Sig­fús­son, spurður hvenær hann muni fyrst eft­ir sér, en hann er 103 ára síðan í fe­brú­ar. 

„Húna­fló­inn var all­ur full­ur af haf­ís, sér­stak­lega Hrúta­fjörður og Miðfjörður. Frostið var mest eft­ir ára­mót­in og hélt áfram al­veg fram í mars. Ísinn dugði fram á vorið. Til allr­ar ham­ingju hef­ur annað eins ekki átt sér stað síðan.“

Svo kalt hef­ur hon­um ekki orðið síðan. Sem bet­ur fer. Lár­us Sig­fús­son gerðist ung­ur bóndi í Hrútaf­irði en brá búi um fer­tugt vegna veik­inda. Flutti þá suður og gerðist sölumaður og síðar leigu- og ráðherra­bíl­stjóri áður en hann sneri sér aft­ur að bú­skap. Hann hætti að keyra bíl 100 ára og fór síðast á hest­bak ári síðar. Nú fer hann ferða sinna á raf­skutlu, að því gefnu að sam­býl­is­kon­an vísi veg­inn. Sjón Lárus­ar er nefni­lega far­in að dapr­ast. 

Lár­us ólst upp á Stóru-Hvalsá í Hrútaf­irði og hafði fjöl­skyld­an til hnífs og skeiðar. „Já, það voru ekki nein­ar áhyggj­ur. Þótt það kallaðist fá­tækt var það í raun og veru ekki fá­tækt. Hvernig get­ur fólk verið fá­tækt þegar það er að ala upp börn, sinna skepn­un­um og er með sjó­inn við hönd­ina? Það var fisk­ur í sjón­um í Hrútaf­irði nán­ast allt árið; að minnsta kosti fram að jóla­föstu og svo kom hann aft­ur með vor­inu.“

– Hvenær flutt­irðu að heim­an?

„Þegar ég byrjaði að búa. Það var árið 1937. Ekki kom annað til greina en að verða bóndi og ég hóf bú­skap á bæ í sveit­inni, Kol­beinsá. Maður fór ung­ur að huga að alls kon­ar hagræði fyr­ir land­búnaðinn, svo sem að kyn­bæta skepn­ur. Með bú­skapn­um var ég vetr­ar­póst­ur frá Stað í Hrútaf­irði að Hólma­vík. Bar póst­inn út á hest­um, frá tveim­ur og upp í fjóra. Það var ekki alltaf auðvelt starf, maður lenti reglu­lega í vond­um veðrum og þurfti að nýta kraft­ana til hins ýtrasta. Þá var ég um tíma formaður bæði hesta­manna­fé­lags­ins og ung­menna­fé­lags­ins í sveit­inni. Eft­ir tutt­ugu ár á Kol­beinsá flutti ég til Reykja­vík­ur.“

– Hvað kom til?

„Það kom ekki til af góðu. Ég fékk heila­himnu­bólgu og átti að drep­ast en gerði ekki. Ég var lengi að ná mér eft­ir þau veik­indi og treysti mér ekki til að halda bú­skap áfram. Við kom­una til Reykja­vík­ur 1956 byrjaði ég að vinna hjá Sam­bandi ís­lenskra sam­vinnu­fé­laga, sem sölumaður í Gefj­un. Seldi karl­manns­föt. Síðar ferðaðist ég vítt og breitt um landið og seldi. Það gekk ágæt­lega. Ég seldi líka all­ar iðnaðar­vör­urn­ar frá Ak­ur­eyri sem nutu mik­illa vin­sælda. Úrvalsvör­ur margt af því en núna er það allt út­dautt.“

– Mér skilst að þú haf­ir alltaf verið mik­ill bíla­dellu­karl.

„Það er al­veg rétt. Ég hef eign­ast marga bíla um dag­ana; yfir hundrað skilst mér, lög­regl­an lét mig vita af því. Samt var ég aldrei sektaður. Ég held að það sé þokka­lega af sér vikið en ég hætti ekki að keyra fyrr en ég var orðinn hundrað ára. Ég var alltaf að kaupa bíla og gera þá upp, mér til ánægju og yndis­auka. Ég seldi síðasta bíl­inn að verða hundrað ára. Hann fór til kaup­fé­lags­stjóra norður á Strönd­um.

– Ertu póli­tísk­ur?

Já, en ég er löngu hætt­ur að skipta mér af póli­tík­inni. Ég var sett­ur inn í hana ell­efu ára fyr­ir norðan. Það er saga að segja frá því. Kosn­ing­ar stóðu fyr­ir dyr­um og pabbi sál­ugi tók mig með sér á fund í Hrútaf­irði. Þegar fund­ar­rit­ari var að skrifa fund­ar­gerðina kom í ljós að 13 full­orðnir menn voru á fund­in­um. Það þótti af­leitt enda 13 al­gjör óhappa­tala. Þá gall í fund­ar­rit­ar­an­um: Heyrðu, við höf­um Lár­us bara með. Og þar með vor­um við orðnir fjór­tán og ég skráður í flokk­inn.“

– Hvaða flokk­ur var það?

„Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og ég hef verið í hon­um síðan. Þeir eru samt löngu hætt­ir að tala við mig sem flokks­mann. Ég er orðinn úr­elt­ur.“

Nán­ar er rætt við Lár­us í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. 

Lárus við einn af fjölmörgum bílum sínum; hann hefur átt …
Lár­us við einn af fjöl­mörg­um bíl­um sín­um; hann hef­ur átt yfir hundrað um dag­ana.
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert