Hópur fólks fékk ekki að innrita sig í flug Wow air á flugvellinum í Toronto í Kanada í gær vegna þess að millinafn þeirra vantaði í bókunina. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, segir það á ábyrgð farþeganna að nafn á bókun sé í samræmi við vegabréf þeirra og að öryggisreglur kanadískra yfirvalda komi í veg fyrir að hægt sé að breyta nafni á farseðli við innritun.
Larissa Hofman deildi myndbandi af atvikinu á Facebook-síðu sinni sem sjá má neðst í fréttinni. Þar tjáir hópur fólks sig um stöðuna sem upp kom á flugvellinum. Eins og gefur að skilja var fólkið ekki sátt með meðferðina og illa gekk að ná í þjónustufulltrúa flugfélagsins.
Í samtali við mbl.is segir Larissa að sumir farþeganna hefðu flogið áður með Wow air frá Kanada án þess að nota millinöfn sín í bókuninni og ekki lent í vandræðum. Hún segir að yfirbókað hafi verið í flugið og að flugfélagið hafi notað þetta sem afsökun til að leysa úr vandamálinu.
Svanhvít neitar því að yfirbókun flugsins hafi spilað inn í.
„Undir venjulegum kringumstæðum leyfir Wow air farþegum að breyta nafni sínu í samræmi við vegabréf við innritun á öllum flugvöllum nema í Kanada,“ segir Svanhvít. Í Kanada sé það ekki mögulegt vegna þess að 24 klukkustundum fyrir brottför þurfi að senda farþegalista til kanadískra yfirvalda og því fáist nöfnum farþega ekki breytt eftir þann tíma.
Í myndbandinu kemur meðal annars fram að í bókunarkerfi flugfélagsins sé aðeins beðið um fornafn og eftirnafn. Það er þó ekki rétt því einnig er þar reitur fyrir millinafn.
Þá segir Svanhvít að farþegar flugfélagsins fái senda nokkra tölvupósta fyrir brottför og að í einum þeirra komi sérstaklega fram áminning til farþega um að nöfn þurfi að vera í samræmi við vegabréf.
„Þetta er á ábyrgð farþeganna en við vildum gera undanþágu og breyttum okkar reglum fyrir ekki löngu síðan þannig að fólk geti breytt nafninu við innritun en í Kanada höfum við ekki leyfi til þess. Á öðrum stöðum er meiri sveigjanleiki.“