Héldu áfram að leggja í skammtímastæðin

Skammtímastæðin við Keflavíkurflugvöll eru ætluð þeim sem eru að koma …
Skammtímastæðin við Keflavíkurflugvöll eru ætluð þeim sem eru að koma fólki í flug. Fyrirtækið BaseParking hefur hins vegar misnotað stæðin og lagt þar til lengri tíma. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Isavia mun í dag sekta eigendur 63 bíla sem hafa nýtt sér þjónustu BaseParking við Keflavíkurflugvöll. Ástæðan er að fyrirtækið hafi nýtt skammtímastæði flugvallarins án þess að greiða fyrir og síðan ekki sinnt beiðnum um að láta af athæfinu. Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Fyrirtækið BaseParking sér um að taka á móti bílum fólks sem er á leið til útlanda og geymir þá síðan á stæðum á Ásbrú. Svo virðist hins vegar sem fyrirtækið hafi farið fram hjá reglum og geymt bíla til lengri tíma á skammtímastæði flugvallarins án þess að greiða, en fólk á að geta lagt gjaldfrjálst í stæðin í kortér til að hleypa farþegum inn í flugstöðina.

Segir Guðjón forsvarsmenn Isavia hafa áttað sig á að eitthvað væri ekki eins og það átti að vera á skammtímastæðunum. „Þá fórum við að reyna að átta okkur á hvað sé í gangi,“ segir hann.

Niðurstaðan sé sú að BaseParking hafi lagt 63 bílum ólöglega á skammtímastæðinu, en ekki sé hægt að rukka fyrirtækið þar sem það sé ekki lögaðili í málinu og því falli rukkunin á eiganda bílsins.

Verið á stæðinu í einhverja daga

Vangreiðslugjaldið fyrir hvern bíl er 50 þúsund krónur, auk gjaldtöku fyrir tímann sem hann var á skammtímastæðinu. „Það er mjög misjafnt hve lengi bílarnir hafa verið geymdir þarna,“ segir Guðjón. „Einhverjir bílar hafa verið þarna í einhverja daga og þá safnast þetta upp.“ 

„Þetta brýtur í bága við reglur, því þarna er verið að nota aðferðir til að misnota stæðin.“

Spurður hvort Isavia hafi ekki haft samband við BaseParking vegna málsins segir hann svo vera.

„Lögfræðingur okkar átti fund með fulltrúum BaseParking og lögfræðingi þeirra fyrir skömmu. Þar birtum við þeim upplýsingar um þá bíla sem hafði verið lagt með þessum hætti og gáfum þeim færi á að gera það upp. Þeir sögðu að þeir þyrftu að fara yfir listann og skoða það sem þar kæmi fram, en lofuðu líka á fundinum að slíkum aðferðum yrði hætt. Það gerðist hins vegar ekki. Þetta hélt áfram og þar af leiðandi er þetta niðurstaðan,“ segir Guðjón og kveður fundinn hafa verið haldinn skömmu fyrir páska.

„Okkur þykir mjög leiðinlegt að þessi leið sé farin, en við gáfum BaseParking færi á þessum fundi [til] að taka á málinu og hætta þessu.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert