„Háttvirtur þingmaður getur skemmt sér við einhverja svona kerskni og látið eins og hér sé verið að hverfa frá fyrri sýn. Auðvitað er það ekki svo,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar. Þorgerður vildi meina að Katrín og Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefðu sagt skilið við þá stefnu sína að leggjast gegn gjaldtöku í samgöngumálum.
„Samgönguáætlun sem hér var samþykkt 2016 var ekki fjármögnuð. Munurinn á þessari fjármálaáætlun og þeirri sem háttvirtur þingmaður stóð að á sínum tíma er að nú er samgönguáætlunin sem var samþykkt á þingi 2016 fjármögnuð. Það er munurinn. Það er það sem ég var að vísa í. Það dugir ekki annað en að horfa til þess hvernig við getum fjármagnað innviðina og fylgt því sem Alþingi hefur samþykkt og ekki hefur verið gert hingað til, því miður,“ sagði forsætisráðherra ennfremur og bætti síðan við:
„Ég ætla að minna á að hæstvirtur forseti, sem var nú fjármálaráðherra og hefur verið í flokki með þeirri sem hér stendur alllengi, var sá sem stóð meðal annarra fyrir því að koma á gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum með nákvæmlega þeim rökstuðningi sem ég fór yfir hér áðan. Við höfum aldrei útilokað gjaldtöku ef aðrar leiðir eru ekki mögulegar. Við höfum hins vegar sett fram verulegar efasemdir um að setja gjaldskylduhlið til að mynda í kringum höfuðborgarsvæðið, sem er ein af þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu.“