„Hver ber ábyrgðina?“ spurði Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, og beindi orðum sínum að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra á Alþingi. Halldóra ræddi stöðu ljósmæðra en hún sagði málið grafalvarlegt.
Halldóra benti á að fjöldi ljósmæðra hefur sagt upp störfum en þær standa í kjaraviðræðum við ríkið. „Störf ljósmæðra eru algerlega nauðsynleg til að tryggja heilbrigði mæðra og barna og eru menntakröfur til þeirra í samræmi við það krefjandi starf sem þær sinna. En einhverra hluta vegna er vinna þeirra ekki metin til fjár,“ sagði Halldóra.
Hún sagði fjármálaráðherra bera ábyrgð á starfsmanna- og kjaramálum ríkisins. „Ber hann þá ekki endanlega ábyrgð á því neyðarástandi sem blasir við? Eða er ábyrgðin einhvers annars? Og ef svo er, hvers er hún? Hver ber ábyrgðina?“
Bjarni sagði að það væri snúið að taka upp kjaraviðræður sem standa yfir og fara að skiptast á skoðunum um hvernig sé best að leiða þær til lykta. Hann sagðist ekki ætla að fara í keppni um hvort honum eða Halldóru þætti vænna um ljósmæður, ljóst sé að þær sinna mikilvægum störfum.
„Ég er einn þeirra Íslendinga sem hafa farið upp á fæðingardeild, fjórum sinnum, og það hefur mjög reynt á þá þjónustu sem hér er vísað til. Ég held að fari ekki vel á því að við förum í einhverja keppni um hvert okkar kunni best að meta þá sem hér eiga undir,“ sagði Bjarni.
Hann sagði að samningaviðræður hefðu gengið ágætlega en allt í einu hefði samninganefnd ljósmæðra skipt um kúrs, ýtt flest sem rætt hafði verið um til hliðar og fært fram nýjar kröfur. „Þess vegna hefur ekki tekist að ljúka samningalotunni. Við munum halda áfram að reyna.“
Halldóra steig aftur upp í pontu og sagðist ekki vera í keppni um hverjum þyki vænst um ljósmæður. „Það sem ég spyr hæstvirtan ráðherra um er: Hver ber ábyrgð á neikvæðum afleiðingum uppsagna ljósmæðra fyrir samfélagið og fyrir konur og börn sérstaklega?“
Bjarni sagði að þær kröfur sem nú hafa verið settar fram séu samninganefnd ríkisins algjörlega óaðgengilegar. „Það er vegna þess að þær myndu setja fordæmi sem settu allar aðrar kjaraviðræður, sem eru á viðkvæmu stigi í þessu landi á þessu ári og því næsta, í algert uppnám. Það er ástand sem við ætlum ekki að skapa í þessari lotu.“