Stjórn læknaráðs Landspítalans lýsir yfir miklum áhyggjum af viðvarandi skorti á legurýmum á gjörgæsludeildum spítalans og ítrekuðum frestunum stærri aðgerða í kjölfarið.
Fram kemur í tilkynningu frá stjórninni, að sjúklingar sem eru á leið í stærri aðgerðir á borð við hjartaaðgerðir hafi þurft að þola endurteknar frestanir á seinustu stundu. Á seinasta ári hafi 36% allra hjartaaðgerða verið frestað vegna skorts á legurýmum á gjörgæslu og 20% vegna annarra þátta. Dæmi séu um að fresta hafi þurft hjartaaðgerð allt að sex sinnum hjá sama sjúklingi. Endurteknar frestanir aðgerða leiði til mikillar sóunar á dýrmætum skurðstofutíma og starfskröftum sem mætti nýta mun betur.
„Núverandi ástand er hvorki sjúklingum Landspítalans né starfsfólki boðlegt. Gjörgæsludeildir Landspítalans annast veikustu sjúklinga landsins, ekki er hægt að vísa þeim sjúklingum áfram á önnur sjúkrahús eða stofnanir.
Ástæður ítrekaðra frestana á stórum skurðaðgerðum eru einkum:
„Stjórnvöld eru hvött til þess að leggja þegar fram fjármagn til stækkunar og breytinga á núverandi húsnæði þannig að þar sé hægt að bæta aðstæður sjúklinga og starfsfólks. Ljóst þykir að nýr spítali verður ekki tilbúinn til notkunar á allra næstu árum en endurbætur á gjörgæsludeildum þola enga bið.
Sértækar aðgerðir þarf til að laða að fleiri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til starfa á gjörgæsludeildum Landspítalans með því að bæta kjör þeirra. Viðvarandi álag hefur valdið því að veikindi hjá starfsfólki hafa aukist, það leitar í önnur störf og nýliðun verið lítil sem engin,“ segir stjórn læknaráðsins.