Dæmi um að hjartaaðgerð hafi verið frestað sex sinnum

Á seinasta ári var 36% allra hjartaaðgerða frestað vegna skorts …
Á seinasta ári var 36% allra hjartaaðgerða frestað vegna skorts á legurýmum á gjörgæslu og 20% vegna annarra þátta. mbl.is/Eggert

Stjórn læknaráðs Landspítalans lýsir yfir miklum áhyggjum af viðvarandi skorti á legurýmum á gjörgæsludeildum spítalans og ítrekuðum frestunum stærri aðgerða í kjölfarið.

Fram kemur í tilkynningu frá stjórninni, að sjúklingar sem eru á leið í stærri aðgerðir á borð við hjartaaðgerðir hafi þurft að þola endurteknar frestanir á seinustu stundu. Á seinasta ári hafi 36% allra hjartaaðgerða verið frestað vegna skorts á legurýmum á gjörgæslu og 20% vegna annarra þátta. Dæmi séu um að fresta hafi þurft hjartaaðgerð allt að sex sinnum hjá sama sjúklingi. Endurteknar frestanir aðgerða leiði til mikillar sóunar á dýrmætum skurðstofutíma og starfskröftum sem mætti nýta mun betur.

Aukinn ferðamannastraumur og skortur á starfsfólki

„Núverandi ástand er hvorki sjúklingum Landspítalans né starfsfólki boðlegt. Gjörgæsludeildir Landspítalans annast veikustu sjúklinga landsins, ekki er hægt að vísa þeim sjúklingum áfram á önnur sjúkrahús eða stofnanir.

Ástæður ítrekaðra frestana á stórum skurðaðgerðum eru einkum:

  • Skortur á starfsfólki, sérstaklega sérmenntuðum hjúkrunarfræðingum
  • Skortur á legurýmum á gjörgæslu
  • Aldursaukning íslensku þjóðarinnar
  • Aukinn ferðamannastraumur til landsins
  • Þröngur og úreltur húsakostur sem ekki samræmist nútíma kröfum.

Aukin veikindi sökum viðvarandi álags

„Stjórnvöld eru hvött til þess að leggja þegar fram fjármagn til stækkunar og breytinga á núverandi húsnæði þannig að þar sé hægt að bæta aðstæður sjúklinga og starfsfólks. Ljóst þykir að nýr spítali verður ekki tilbúinn til notkunar á allra næstu árum en endurbætur á gjörgæsludeildum þola enga bið.

Sértækar aðgerðir þarf til að laða að fleiri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til starfa á gjörgæsludeildum Landspítalans með því að bæta kjör þeirra. Viðvarandi álag hefur valdið því að veikindi hjá starfsfólki hafa aukist, það leitar í önnur störf og nýliðun verið lítil sem engin,“ segir stjórn læknaráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert