Leikkona í verkinu Sýningin sem klikkar í Borgarleikhúsinu slasaðist á sýningu verksins í kvöld svo hætta þurfti sýningu í miðju verki.
Greint er frá málinu á vef RÚV þar sem segir að atvikið hafi átt sér stað skömmu fyrir hlé þegar leikkonan fékk hurð í andlitið og fékk skurð á munn. Einhver misskilningur átti sér stað um hvenær hurðin átti að opnast og átti leikkonan að setja höndina fyrir hurðina. Það gerðist hins vegar ekki og fékk leikkonan hurðina í höfuðið.
Hún hélt ótrauð áfram fram að hléi en leitaði þá aðhlynningar á slysadeild. Hún er ekki talin alvarlega slösuð.
Leiksýningin fjallar um leiksýningu þar sem allt fer úrskeiðis og því áttu leikhúsgestir margir hverjir bágt með að trúa að hætta þyrfti sýningunni þegar tilkynningin barst. Sýningin sem klikkar klikkaði því eftir allt saman.