Hiti í kennurum er tillögu var frestað

Þingsályktunartillaga þess efnis að þing KÍ skori á tilvonandi formann …
Þingsályktunartillaga þess efnis að þing KÍ skori á tilvonandi formann að endurnýja umboð sitt með endurteknum kosningum verður tekin fyrir á morgun. mbl.is/Hari

Atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu, þess efnis að þing Kennarasambands Íslands skori á Ragnar Þór Pétursson, tilvonandi formann KÍ að leita endurnýjaðs umboðs til þess að leiða félagið, hefur verið frestað til morguns. Nokkur hiti var í þingfulltrúum er tillagan var lesin upp á öðrum tímanum í dag og yfirgaf Ragnar Þór salinn áður en hún var tekin fyrir, að eigin frumkvæði.

Í tillögunni kemur fram að þar sem þingið hafi til umfjöllunar stuðning við þolendur ofbeldis, áreitis og smættunar skipti máli að formaður KÍ hafi trúverðugleika er hann mælir fyrir stefnu þingsins næstu árin.

Kallað var fram í fyrir flutningsmönnum tillögunnar og mikil læti urðu í ráðstefnusalnum á Hótel Nordica er lagt var til að tillagan yrði tekin fyrir sem forgangstillaga án umræðu vegna tímaskorts og að um hana yrði leynileg kosning.

Guðríður Arnardóttir mun ekki bjóða sig fram ef Ragnar Þór …
Guðríður Arnardóttir mun ekki bjóða sig fram ef Ragnar Þór samþykkir að kosið verði aftur til formanns KÍ.

Að lokum var ákveðið að taka tillöguna fyrir undir liðnum Önnur mál, á morgun kl. 14:30.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara og mótframbjóðandi Ragnars Þórs í formannskjöri í haust, segir í samtali við mbl.is að hún hefði haldið að stuðningsmenn Ragnars og Ragnar sjálfur myndu taka tillögunni fagnandi, þar sem hún væri mjög hófstillt.

Engum dylst að Guðríður er fylgjandi tillögunni, en hún var þó ekki í þeim hópi kvenna sem lögðu hana fram. 

Henni finnst einnig „sérkennilegt“ að atkvæðagreiðslu um tillöguna hafi verið frestað, þar sem framlagning hennar hefði verið í samræmi við þingsköp.

„Ef hún verður samþykkt fær hann tækifæri til þess að styrkja stöðu sína ef hann fær endurnýjað umboð í annarri kosningu,“ segir Guðríður, en þingsályktunartillagan kveður á um að hvorki þær konur sem standa að henni, né Guðríður sjálf, bjóði sig fram í endurteknum kosningum til formanns KÍ, ef Ragnar samþykkir að af þeim verði.

Þingsályktunartillaga um endurteknar kosningar í heild

Sjöunda þing Kennarasambands Íslands skorar á Ragnar Þór Pétursson nýkjörinn formann að hann samþykki að haldin verði ný kosning og taki ekki við embætti fyrr en að henni lokinni. Stuttu eftir að úrslit í formannskjöri Kennarasambands Íslands lágu fyrir komu fram alvarlegar ásakanir á hendur Ragnari, þar sem hann var ásakaður um blygðunarsemisbrot.

Á þinginu er til umfjöllunar stuðningur við þolendur ofbeldis, áreitis og smættunar og því skiptir máli að formaður KÍ hafi trúverðugleika þegar hann mælir fyrir stefnu þingsins næstu árin. Þingið skorar á verðandi formann að heimila nýja kosningu, þar sem hann hefur kost á að endurnýja umboð sitt. Við óskum eftir því að tillagan verði tekin til skoðunar sem forgangstillaga án umræðu vegna tímaskorts og um hana verði leynileg kosning.

Engin af þeim konum sem hér standa og Guðríður Arnardóttir til viðbótar, munu bjóða sig fram ef af nýrri kosningu verður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert