Tuttugu og eitt skilríkjamál kom upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á fyrstu þremur mánuðum ársins og hafa þau aldrei verið fleiri á sama tímabili ársins. Tvö mál hafa komið upp það sem af er aprílmánuði.
Þá var árið 2017 einnig metár þegar heildarfjöldi skilríkjamála er skoðaður, en upp komu 92 mál í flugstöðinni, þar af fjórtán fyrstu þrjá mánuði ársins.
Af því 21 máli sem upp hefur komið á árinu voru skilríkin breytifölsuð í 10 tilvikum, grunnfölsuð í níu tilvikum en í tveimur tilvikum framvísuðu aðilarnir ófölsuðum skilríkjum annarra. Albanar komu við sögu í flestum málum en alls voru aðilarnir af átta þjóðernum. Skilríkin sem um ræðir voru oftast grísk og ítölsk.