Fulltrúar á þingi Kennarasambands Íslands vísuðu nú síðdegis frá þingsályktunartillögu um áskorun til Ragnars Þórs Péturssonar þess efnis að hann samþykki að boða til nýrra formannskosninga í félaginu. Í umræðu um þingsályktunartillöguna, sem farið var fram á af þingfulltrúum, kom fram hörð gagnrýni á framlagningu tillögunnar á þingi kennara.
Atkvæði þingfulltrúa féllu 96-78 og auðir seðlar voru 6. Tillögunni var því vísað frá, sem áður segir.
Þingfulltrúar sem tóku til máls voru ekki nafngreindir sérstaklega er þeir stigu í pontu og blaðamaður sem fylgdist með fundinum þekkti þá því miður ekki alla með nafni.
Einn þingfulltrúa sagðist ekki halda að hún hefði áður séð aðra eins aðför að einum manni og gegn Ragnari Þór á þingi kennara. Næstum hefði verið búið að ákveða hver niðurstaðan yrði. „Þetta þing er ekki þverskurður af félagsmönnum KÍ,“ sagði þingfulltrúinn og bætti við að hún teldi þing kennara ekki endurspegla vilja félagsmanna KÍ í þessu máli.
Annar þingfulltrúi sagði þetta leiðindamál, sem hefði verið borið upp á „ömurlegan hátt“ í gær. Hún sagði að hún hefði sannast sagna undrast að það væru forsvarsmenn stéttar kennara sem hefðu staðið að tillögunni, en þær Ingileif Ástvaldsdóttir, Ingibjörg Kristleifsdóttir, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, Guðbjörg Ragnarsdóttir og Fjóla Þorvarðardóttir sem settu nafn sitt við tillöguna hafa allar sinnt trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög kennara.
Sami þingfulltrúi sagðist hafa verið spurð að því í gær hvort hún væri „Ragnars-maður.“ Hún var undrandi á því – sagðist ekki þekkja manninn.
„Hann hefur sagt við mig þrjú orð: „Er hangikjötið gott?“ af því að ég var að borða flatbrauð hérna frammi,“ sagði fulltrúinn og bætti við að það vekti hjá henni undrun að grunnskólakennarar og framhaldsskólakennarar skyldu voga sér að koma svona fram.
„Ég myndi bara aldrei leyfa nemendum mínum að gera svona,“ sagði konan og spurði: „Af hverju sendiði þetta ekki bara út til félagsmannanna, leyfið þeim að ákveða, eins og þeir ákváðu að Ragnar Þór skyldi verða formaður KÍ.“
Fram kom í máli fleiri en eins þingfulltrúa í umræðunum að framlagning tillögunnar hefði ekki verið í samræmi við þingsköp og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir sagði að ef að flutningsmönnum hefði orðið það á að brjóta þingsköp þá þætti þeim það raunverulega leitt.
Hanna Björg lýsti sig ósammála því sem kom fram í máli fyrri ræðumanns um að þingið gæti ekki talað fyrir hönd kennara á Íslandi. „Þetta er einmitt samkoma fulltrúa kennara á Íslandi,“ sagði Hanna.
Við þá sem höfðu bent á að þrátt fyrir að þing kennara samþykkti ályktunina væri Ragnar Þór samt réttkjörinn formaður Kennarasambands Íslands sagði Hanna Björg að ekki þyrfti lagastoð til þess að samþykkja ályktun sem þessa.
„Þessi ályktun var beiðni til Ragnars Þórs um að taka ekki að þér þessa formennsku, því að embættið er miklu miklu stærra en þú,“ sagði Hanna Björg, sem er forkona jafnréttisnefndar KÍ.