Umfangsmikil kannabisræktun var stöðvuð í Þykkvabæ í vikunni og hald lagt á 322 plöntur í blóma, 16 kíló af kannabislaufum og sjö milljónir í reiðufé. Fjórir menn voru handteknir vegna málsins, þrír pólskir ríkisborgarar og einn íslenskur, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð að rannsókninni í samstarfi við Europol og pólsk lögregluyfirvöld. RÚV greindi fyrst frá.
Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir þetta viðmbl.is, en í fréttatilkynningu vegna málsins segir að lögregluaðgerðin hafi verið hluti af rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi, sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið.
Í tilkynningunni segir að einn maður hafi verið handtekinn á staðnum, en hinir þrír annars staðar á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Mönnunum hefur öllum verið sleppt og að sögn Karls er ekki talin hætta á að pólsku ríkisborgararnir fari úr landi.
„Þá fer málið bara á eftir þeim,“ segir Karl Steinar.
Áður hafði lögreglan lagt hald á 1,5 kíló af kannabisefnum og nokkuð af e-töflum og kókaíni við húsleit í skrifstofurými í Hafnarfirði í máli sem tengist sömu rannsókn, en þar var einn handtekinn.
„Að aðgerðunum komu lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og embætti ríkislögreglustjóra, en rannsókn málsins er jafnframt unnin í samvinnu við tollyfirvöld, pólsku lögregluna, m.a. Asset Recovery Office í Varsjá, og Europol,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.