Íslensk stjórnvöld áforma að styrkja starfsemi sendiráðs Íslands í Brussel. Segir í nýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins um bætta framkvæmd EES-samningsins, að þörf sé á að fagráðuneytin eigi fulltrúa við sendiráðið á ný.
Í inngangi skýrslunnar segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, m.a. að margt hafi verið gert á undanförnum árum til að ráða bót á framkvæmd EES-samningsins hér á landi en gera megi betur. Því hafi hann látið taka saman frekari hugmyndir í því skyni að hægt verði að byggja á og liðka fyrir yfirstandandi starfi að umbótum á framkvæmd EES-samningsins. Þessar hugmyndir hafi þegar verið bornar upp til samþykktar í ríkisstjórn í samvinnu við forsætisráðuneytið.
Fram kemur í skýrslunni, að eftir að EES-samningurinn tók gildi á Íslandi 1. janúar 1994 höfðu flest ráðuneytin fulltrúa í sendiráðinu. Í sumum tilvikum starfaði einn fulltrúi á vegum tveggja ráðuneyta, en í öðrum tveir fulltrúar á vegum eins ráðuneytis. Haustið 2009, árið sem Ísland sótti um aðild að ESB, tók fulltrúum þessum að fækka og nú séu einungis þrír fulltrúar fagráðuneyta við störf í sendiráðinu, frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Þörf sé á að önnur ráðuneyti eigi fulltrúa við sendiráðið á ný. Einnig sé æskilegt að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hafi tvo fulltrúa í sendiráðinu í stað eins, þar sem málefnasvið ráðuneytisins sé orðið umfangsmeira en svo að einn fulltrúi fái við það ráðið í Brussel. Loks væri vert að kanna hvort Alþingi gæti annast tengsl við Evrópuþingið og fylgst nánar með gerðum sem eru í mótun á vettvangi ESB, t.d. með því að hafa fulltrúa í sendiráðinu.
Segir í skýrslunni, að utanríkisráðuneytið, í samráði við forsætisráðuneytið, mun annast úthlutun fjár til að kosta stöður fagráðuneyta í Brussel. Ætlast sé til að mat verði lagt á störf fulltrúanna í Brussel ár hvert og komi það í hlut stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins, undir forystu forsætisráðuneytisins, að hafa umsjón með því mati.
Ef reiknað sé með að fulltrúi dvelji í Brussel ásamt maka og tveimur börnum á skólaaldri, megi ætla að kostnaður við hvern og einn verði að óbreyttu um 27 milljónir króna á ári. Verði fulltrúum fjölgað um sex sé áætlaður heildarkostnaður um 162 milljónir á ári. Þetta yrði hreinn viðbótarkostnaður ríkissjóðs, en við bætist síðan kostnaður, 81 milljón á ári, við stöður þeirra þriggja ráðuneyta sem fyrir eru og verði sá kostnaður fluttur af öðrum lið fjárlaga.