Flókið fyrir Vinstri græn að styðja NATO

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það flókna stöðu fyrir Vinstri græn …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það flókna stöðu fyrir Vinstri græn að styðja yfirlýsingu NATO um hernaðaraðgerðir í Sýrlandi. NATO sé hins vegar hluti af þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt hefur verið á Alþingi, af öllum flokkum nema Vinstri grænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það vera flókna stöðu fyrir Vinstri græna sem ríkisstjórnarflokk að styðja yfirlýsingu NATO um hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna, Frakka og Breta í Sýrlandi þar sem flokkurinn er opinberlega og einlæglega á móti veru Íslands í NATO.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í yfirlýsingu í gær að NATO fordæmi ítrekaða notkun sýrlenska stjórnarhersins á efnavopnum og að bandalagið styðji heilshugar hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna, Frakka og Breta á Sýrland aðfaranótt laugardags.

„Við utanríkisráðherra erum sammála um að eina leiðin til lausna á Sýrlandsstríðinu sem er búið að standa yfir í sjö ár er að finna diplómatíska lausn, það er það sem Ísland hefur talað fyrir,“ sagði Katrín í viðtali við Björt Ólafsdóttur í þjóðmálaþættinum Þingvellir á K100 í morgun.

Katrín sagði árásirnar hins vegar vera viðbúnar þar sem ekki náðist samstaða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.  

Eina lausnin er diplómatísk að mati íslenskra stjórnvalda

Íslensk stjórnvöld stigu ekki fram með sérstaka stuðningsyfirlýsingu í kjölfar árásarinnar eins og Evrópusambandið, en í kjölfar yfirlýsingar NATO má draga þá ályktun að Ísland styðji hernaðaraðgerðirnar. „En um leið ítrekaði Ísland að eina lausnin er pólitísk eða diplómatísk lausn,“ sagði Katrín.

NATO er líður í þjóðaröryggisstefnu Íslands. „Hún hefur verið samþykkt á Alþingi af öllum flokkum nema ekki með stuðningi Vinstri grænna. Þegar við förum inn í ríkisstjórn gerum við það með þau opnu augu að við þurfum að fylgja eftir samþykkt Alþingis þó að við, okkar 17%, séum ekki nákvæmlega sammála þessum lið og við störfum samkvæmt þeirri stefnu sem þar hefur verið samþykkt,“ sagði Katrín.

Hún sagði jafnframt að mál eins og þetta sé skýrt dæmi um hversu flókið hlutverk það er að vera í ríkisstjórn. „Það er alltaf snúið að vera í ríkisstjórn og maður verður bara að horfast í augu við það.“

Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sagði í Silfrinu í morgun að Ísland hafi samþykkt yfirlýsingu NATO í gær.
Í yfirlýsingunni er lýst fullum stuðningi við loftárásir í Sýrlandi. Borgar segir að í yfirlýsingunni komi fram að algjör samstaða sé um það meðal ríkja heims að notkun efnavopna verði ekki liðin. NATO gefi aldrei frá sér yfirlýsingu án þess að öll bandalagsríkin séu því samþykk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert