Hernaðaríhlutun engu skilað

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það hefur sýnt sig að hernaðaríhlutun hefur engu skilað í þessu viðbjóðslega stríði og þá er ég ekki eina sekúndu að verja þetta ógeð sem það er að beita eigin þjóð efnavopnum,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og 2. varaformaður í utanríkismálanefnd Alþingis, í Kastljósi.

Þar var rætt við hann og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann utanríkismálanefndar, um loftárás Bandaríkjanna, Frakka og Breta á Sýrland.

Logi sagði loftárásina hafa verið ótímabæra og að betra hefði verið að bíða eftir niðurstöðu rannsóknar á uppruna efnanna, sem talið er að hafi verið notuð í árás á almenna borgara í Douma á dögunum, áður en ákvörðunin um loftárásina var tekin. Utanríkismálanefnd hafi ekki verið upplýst um málið fyrir fram.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, og Logi Einarsson sátu fyrir …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, og Logi Einarsson sátu fyrir svörum í Kastljósi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Logi lagði áherslu á að alltaf skuli leitast við að beita friðsamlegum, diplómatískum leiðum.

„Við þurfum að passa að allar aðgerðir af þessum toga uppfylli alþjóðalög. Annars eigum við á hættu að önnur ríki grípi til sömu meðala.“

Áslaug Arna sagði íslensku ríkisstjórnina standa með NATO en bætti við að ríkisstjórnin hafi komið sínum sjónarmiðum á framfæri í ályktun sem bandalagið sendi út vegna loftárásarinnar.

Hún sagði að NATO hafi komið að aðgerðinni eftir á og tók fram að ríkisstjórnin fordæmi efnavopnaárásir. Sýna þurfi fram á með einhverjum hætti hvaða afleiðingar það hafi í för með sér að nota efnavopn.

Spurð hvort ríkisstjórnin lifi það af ef NATO heldur áfram að tengjast árásum á Sýrland, í ljósi andstöðu Vinstri grænna við veru Íslands í NATO, sagði Áslaug þjóðaröryggisstefnu Íslands sem var samþykkt á Alþingi mjög skýra hvað varðar þátttöku landsins í NATO.

Hún sagði stöðuna viðkvæma og nefndi að leggja þurfi meiri áherslu á utanríkismál í umræðu á Íslandi.

Logi sagði ljóst að stríðinu í Sýrlandi ljúki ekki með þessari árás.

„Forsætisráðherra getur ekki hamrað endalaust á þessari möntru að Vinstri græn séu á móti NATO og á móti varnarbandalögum. Hún verður að koma skýrt fram og segja: „Já, við lýstum stuðningi við þessar árásir.“,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert