Kynjafræði verður skyldunámsgrein á öllum skólastigum, verði þingsályktunartillaga Ingibjargar Þórðardóttur, varaþingmanns VG, að veruleika. Hún leggur til að ráðherra skipi starfshóp sem hafi það verkefni að undirbúa breytingar á aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla í þessu skyni.
Auk vill Ingibjörg að starfshópurinn geri tillögur um breytingu á kennaranámi, sem verði til þess að allir kennarar öðlist lágmarksþekkingu á kynjafræði sem námsgrein. Jafnframt verði komið á ítarlegra námi í kynjafræði sem búi kennara undir að kenna kynjafræði sem sérstaka námsgrein á öllum skólastigum.
„Einn af grunnþáttum menntunar er jafnrétti samkvæmt aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þrátt fyrir það sjást þess ekki nægilega skýr merki, hvorki almennt í skólastarfi né þegar námsgreinar eru skoðaðar. Kynjafræði ætti að vera fléttuð inn í nám leikskólanna og vera sérstök námsgrein í grunn- og framhaldsskóla sem allir nemendur þyrftu að taka,“ skrifar Ingibjörg í greinargerð með tillögu sinni.
Hún segir að mikilvægt sé að vinna gegn úreltum hugmyndum um að eðli og hlutverk karla og kvenna sé ólíkt. Slíkar hugmyndir setja konur í veikari stöðu í samfélaginu og hafa einnig skaðleg áhrif á líf karla.
Með kynjafræðslu sé meðal annars hægt að vinna gegn úreltum staðalímyndum kynja, hægt að hafa áhrif á viðhorf samfélags til kynbundins ofbeldis, styrkja sjálfsmynd og sjálfsöryggi stúlkna og auka tilfinningalegt frelsi drengja til að þeir eigi auðveldara með að leita sér aðstoðar.
„Stórir hópar samfélagsins kalla nú á þessa breytingu. Byltingar eins og #höfumhátt, #metoo, #karlmennskan og einnig verkefni eins og #sjúkást hafa sýnt að úrbóta er þörf,“ skrifar Ingibjörg.