Hafið er yfir allan vafa að Khaled Cairo hafi veist að Sanitu Brauna að kvöldi 21. september á síðasta ári með því að slá hana ítrekað í höfuðið með bæði flösku og slökkvitæki. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Cairo en hann var í dag dæmdur í 16 ára fangelsi að frádregnu gæsluvarðhaldi fyrir að valda dauða Sanitu. Þá var hann dæmdur til þess að greiða vel á þriðja tug milljóna í skaðabætur og málskostnað.
Fram kemur í dómnum að skýrsla réttarmeinafræðings um krufningu á Sanitu og blóðferlagreining lögreglu leiddi atburðarásina nánar í ljós. Miðað við greiningu hafi Cairo ítrekað slegið Sanitu í höfuðið með glerflöskum inni í rúmi í herbergi hennar. Af því hafi hún hlotið mjög alvarlega áverka í andliti og á höfði. Sanitu hafi tekist að komast fram á gang íbúðarinnar og Cairo þá sest ofan á hana þar sem hún hafi lengið á maganum.
Cairo hafi í þessari stöðu þrengt kröftuglega með höndunum að hálsi hennar. Framburður nágranna, sem hafi heyrt hljóð úr íbúðinni í þessa veru, væru í samræmi við það. Cairo hafi að lokum slegið Sanitu með slökkvitæki, sem vegið hafi 9,7 kíló, í höfuðið aftanvert. Þessi atburðaráðs samræmist krufningarskýrslu, en samkvæmt henni hafi höggáverkar með hörðum hlut verið veittir minnst tvisvar á hnakka Sanitu og minnst þrisvar á hvirfilbein.
Fram kemur ennfremur að árás Cairos hafi verið hrottafengin, en blóðferlar í íbúðinni við Hagamel í Reykjavík, þar sem árásin fór fram, leiddu það í ljós. Ítrekuð högg í andlitið með glerflösku hafi verið með þeim hætti að Cairo hafi ekki geta dulist að slík högg gætu valdið dauða. Það hafi verið upphafið að ofsafenginni atburðarás sem síðar hafi leitt til dauða Sanitu. Verði að ganga út frá því að ásetningur Cairos hafi verið að bana henni.
Vísað er í upptökur af samtali nágranna Sanitu við lögreglu sem leitt hafi í ljós langdregna atburðarás þar sem Sanita hafi sífellt hrópað á hjálp á milli þess sem hún hafi beðið Cairo að þyrma sér. Miðað við upphaf árásarinnar og hvernig hún hafi endað með hliðsjón af upptökum hafi það verið einbeittur ásetningur Cairos að bana Sanitu. Fyrir vikið verði hann sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir manndráp og til refsingar í samræmi við það.
Fram kemur að Cairo sé fæddur 1979 og ríkisborgari í Jemen. Hann hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé um. Cairo sé ennfremur sakhæfur og eigi sér engar málsbætur. „Með hliðsjón af hinni hrottafengnu og langvinnu árás sæti ákærði fangelsi í 16 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald hans frá 22. september 2017.“