Sænskur lögreglumaður ráðleggur sænskum borgurum að hringja í lögregluna sjái þeir til íslenska strokufangans Sindra Þórs Stefánssonar og minnir jafnframt á að almenningur hafi rétt til þess samkvæmt sænskum lögum að handsama eftirlýsta menn. Þetta kemur fram á sænska vefmiðlinum Nyheter 24.
Lögreglumaðurinn, sem heitir Kjell Lindgren og starfar í Stokkhólmi, vildi ekki tjá sig við miðilinn að öðru leyti um rannsókn málsins, þar sem það er rannsakað af alþjóðadeild sænsku lögreglunnar.
Alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Sindra Þór, sem slapp út um glugga á opna fangelsinu Sogni í Ölfusi og náði að koma sér í morgunflug Icelandair frá Keflavík til Arlanda-flugvallar í Stokkhólmi.
Strok Sindra Þórs hefur vakið mikla athygli víða um heim, enda ekki á hverjum degi sem strokufangar komast með áætlunarflugi til annarra landa.
Nýjustu fregnir af rannsókn málsins herma að ekki hafi spurst til ferða Sindra Þórs síðan hann lenti á flugvellinum í Stokkhólmi í um hádegisbil í gær. Lögregla telur nokkuð öruggt að Sindri hafi notið aðstoðar við flóttann.