Nær að bera saman Ísland og Katar

Pallborðsumræður á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar: Guðmundur Hálfdanarson, Kristín Loftsdóttir, Eiríkur Bergmann, …
Pallborðsumræður á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar: Guðmundur Hálfdanarson, Kristín Loftsdóttir, Eiríkur Bergmann, Bergur Ebbi Benediktsson og Hulda Þórisdóttir. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Ísland ætti að hætta að bera sig sam­an við önn­ur ríki í Evr­ópu þegar rætt er um þjóðern­ispo­púl­isma. Nær væri að bera sig sam­an við önn­ur fá­menn en auðug ríki eins og Kat­ar þegar kem­ur að inn­flytj­end­um. Þetta er meðal þess sem kom fram í pall­borðsum­ræðum um lýðskrum og þjóðern­ispo­púl­isma á ráðstefnu Alþjóðamála­stofn­un­ar Há­skóla Íslands.

Berg­ur Ebbi Bene­dikts­son, rit­höf­und­ur og lög­fræðing­ur, stakk upp á þessu eft­ir að fram kom í er­indi á ráðstefn­unni að sam­kvæmt niður­stöðum ís­lensku kosn­inga­rann­sókn­ar­inn­ar töldu um 35% þeirra sem tóku þátt í rann­sókn­inni 2007 að inn­flytj­end­ur væru al­var­leg ógn við þjóð­ar­ein­kenni Íslend­inga en þetta hlut­fall hef­ur lækkað mjög síðan sam­fara auk­inni já­kvæðni í garð inn­flytj­enda sam­kvæmt niður­stöðum úr spurn­ingalista rann­sókn­ar­inn­ar sem lögð er fyr­ir kjós­end­ur í alþing­is­kosn­ing­um. 

Kjós­end­ur Flokks fólks­ins og Dög­un­ar árið 2016 voru lík­leg­ast­ir til þess aðhyll­ast po­púl­isma að því er fram kom í er­indi Huldu Þóris­dótt­ur, dós­ents við stjórn­mála­fræðideild Há­skóla Íslands, á ráðstefnu Alþjóðamála­stofn­un­ar HÍ í morg­un.

Ísland markaðssett sem tákn hrein­leika nátt­úru og þjóðar

Krist­ín Lofts­dótt­ir, pró­fess­or í mann­fræði við Há­skóla Íslands, seg­ir að ras­ismi hér á landi snúi ekki endi­lega að inn­flytj­end­um held­ur einnig að ís­lensk­um börn­um og ung­menn­um sem eru dökk á hör­und. Rann­sókn­ir sýni að þau þurfa sí­fellt að út­skýra til­urð sína og þrátt fyr­ir að vera ekki úti­lokuð í sam­fé­lag­inu þá end­ur­spegl­ar þetta orðræðuna um hvíta Íslend­ing­inn sem er af­kom­andi vík­inga.

Þetta megi jafn­vel sjá í aug­lýs­ing­um og markaðssetn­ingu á Íslandi sem ferðamanna­landi. Þar sem Ísland er staðsett út frá hrein­leika nátt­úru og þjóðar. Þar sem hvít­ir Íslend­ing­ar, kannski með rjóðar kinn­ar, borða skyr í Bláa lón­inu eða úti í nátt­úr­unni.  

Ei­rík­ur Berg­mann, pró­fess­or við stjórn­mála­fræði og for­stöðumaður Evr­ópu­fræðaset­urs Há­skól­ans á Bif­röst, seg­ir að þjóðern­ispo­púl­ismi snú­ist einkum um þrennt: Hann ali á ótta gagn­vart ut­anaðkom­andi ógn, inn­an­land­selíta sé sökuð um að svíkja þjóð sína og þeir sem ala á ótt­an­um stilli sér upp sem vörn gegn þessu.

Oft er horft aft­ur í tíma og lögð áhersla á að end­ur­vekja forn­ar ræt­ur, til að mynda hvít­ir karl­ar þurfi að verja hvít­ar kon­ur gegn brún­um körl­um sem eru annarr­ar trú­ar.

„Við og þið“

Ei­rík­ur, Hulda og Krist­ín tóku þátt í mál­stofu sem nefnd­ist Lýðskrum og þjóðern­is­hyggja: Er Ísland sér á báti? Þau komu inn á það sjálf­skipaða hlut­verk sem po­púl­ist­ar telja sig hafa: Að tala fyr­ir hönd venju­legs fólks „við og þið“ –„hið góða og hið illa“. Po­púlist­inn still­ir sér upp sem vörn gegn þeim óæski­legu.

Oft teng­ist þetta umræðu um óör­yggi inn­an þjóðfé­laga, svo sem þegar kem­ur að at­vinnu og líf­eyr­is­rétt­ind­um. Fólk upp­lifi sem það búi við meira óör­yggi en áður án þess kannski að gera það. Oft sé hægt að skella skuld­inni á þá sem eru túlkaðir sem hinir. Þeir sem ógn stafi af. 

Krist­ín nefndi, sem dæmi um ógn­ina sem fólk telji sig standa frammi fyr­ir, umræðuna í Evr­ópu um flótta­manna­vand­ann svo­kallaða. Talað eins og vand­inn sé ríkj­anna sem taka á móti flótta­fólk­inu en ekki vandi fólks­ins sem neyðist til þess að flýja.

Send­um fólk úr landi í skjóli næt­ur

Hér á Íslandi má sjá þetta í þeirri um­gjörð sem er um brott­vís­un hæl­is­leit­enda en héðan er fólk sent úr landi í skjóli næt­ur líkt og það sé glæpa­menn. Nema glæpa­menn eru ekki send­ir úr landi í skjóli næt­ur hér á Íslandi held­ur fólk sem er á flótta.

Hulda Þóris­dótt­ir seg­ir að hingað til hafi flokk­ar sem hægt sé að fella und­ir þjóðern­ispo­púl­isma átt erfitt upp­drátt­ar á Íslandi. Þeir flokk­ar sem hægt er að skil­greina þannig eru afar fátíðir, senni­lega einna helst Frjáls­lyndi flokk­ur­inn eins og hann var skipaður í kosn­ing­un­um 2007. Síðan hafi Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn daðrað við hann í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­un­um 2014, Íslenska þjóðfylk­ing­in árið 2016 og Flokk­ur fólks­ins það sama ár. Ekki liggja fyr­ir niður­stöður úr ís­lensku kosn­ing­a­rann­sókn­inni frá 2017.

Niðurstaða rann­sókna sýni að að fáir líti á inn­flytj­end­ur sem al­var­lega ógn við þjóðarein­kenni Íslend­inga og í raun séu sí­fellt færri sem séu á þeirri skoðun, líkt og fram kom í töl­um sem Hulda kynnti á ráðstefn­unni. Á sama tíma hef­ur út­lend­ing­um sem bú­sett­ir eru á Íslandi fjölgað og hafa aldrei verið fleiri en nú. Ekki er mun­ur á milli kynja en auk­inn af­stöðumun­ur er á milli ald­urs­hópa og eins mennt­un­arstigs. Það er því eldra sem þýðið er því fleiri líta á inn­flytj­end­ur sem ógn.

Erum já­kvæðari í garð inn­flytj­enda en flest önn­ur ríki Evr­ópu

Í stórri alþjóðlegri rann­sókn, Europe­an Social Sur­vey, sést að Íslend­ing­ar eru já­kvæðari í garð inn­flytj­enda en flest önn­ur þátt­töku­ríki.

Ei­rík­ur bend­ir á að í þessu sam­hengi sé fróðlegt að skoða Frjáls­lynda flokk­inn sem mæld­ist á haust­dög­um 2006 með 2% fylgi. Næsta mánuð á eft­ir skrifuðu helstu for­ystu­menn flokks­ins fjöl­marg­ar grein­ar í blöð þar sem þeir vöruðu við fjölg­un múslima á Íslandi. Aðeins mánuði síðar var flokk­ur­inn mæld­ur í þjóðar­púlsi Gallup með 11% fylgi. Flokk­ur­inn fékk fjóra menn kjörna á þing vorið 2007.

Laund­ótt­ir Hitlers og Obama stofnaði Ríki íslams

Að sögn Ei­ríks er oft álitið að þeir sem til­heyra þess­um hópi sé fólk á jaðrin­um en þannig sé alls ekki alltaf farið því stjórn­mála­menn eins og Vla­dimír Pútín, for­seti Rúss­lands, og Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, hafa sett fram ýms­ar sam­særis­kenn­ing­ar.

Til að mynda hélt Trump því fram að hóp­ur múslima í Banda­ríkj­un­um hafi fagnað falli Tví­bura­t­urn­anna og að Barack Obama hafi stofnað víga­sam­tök­in Ríki íslams. Minna hef­ur farið fyr­ir því að hann hafi lagt fram sann­an­ir fyr­ir um­mæl­um sín­um.

Pútín hef­ur verið harðorður í garð Vest­ur­landa­búa og jafn­vel haldið því fram að Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, sé laund­ótt­ir Ad­olfs Hitler. Nýj­asta út­spilið sé að Margot Wallström, ut­an­rík­is­ráðherra Svíþjóðar, ætli sér að gera alla hvíta karla ófrjóa, seg­ir Ei­rík­ur.

Í pall­borðsum­ræðum kom fram ákveðin bjart­sýni í máli Bergs Ebba. Hann seg­ist upp­lifa það þannig að yngra fólk sé opn­ara og víðsýnna en eldra fólk. Hann nefn­ir þar auk­in ferðalög yngra fólks sem hafi ferðast til út­landa allt frá barnæsku. Eins skipti þar máli sam­fé­lags­miðlar og net­notk­un. Þjóðern­ispo­púl­ismi verði alltaf til en hann breyt­ist.

Íslam­fóbía teng­ir sam­an ólíka hópa

Guðmund­ur Hálf­dan­ar­son, for­seti hug­vís­inda­sviðs, seg­ir að þetta megi meðal ann­ars sjá í því að Trump ráðist ekki á inn­flytj­end­ur sem slíka held­ur eig­in þjóð. Fólk sem bú­sett er í Banda­ríkj­un­um og hef­ur alltaf búið þar en eigi sér ræt­ur ann­ars staðar.

Hægt sé að taka Belg­íu sem dæmi þar sem fjöl­mörg þjóðar­brot búa en þar er íslam­fóbía notuð til þess að tengja sam­an ólíka hópa gegn múslim­um. Alið á ótt­an­um – við og þið.

Að sögn Krist­ín­ar snú­ast for­dóm­ar gagn­vart múslim­um í Evr­ópu að ógn­inni við þjóðríkið og sér­stöðu Evr­ópu. Ei­rík­ur seg­ir merki­legt að sjá hvernig múslim­ar eru gerðir að tákn­mynd fyr­ir hina ytri ógn hér á landi. Í landi þar sem afar fáir múslim­ar búa og það sé ekki ein gata á land­inu öllu sem ber þess merki að þar búi eða starfi múslim­ar. Það sé í eðli sínu snúið að vera í and­stöðu við eitt­hvað sem ekki er til. Hulda seg­ir að þar sé Ísland ekki sér á báti því sama eigi við um Finna og Pól­verja þar sem andúð á múslim­um sé rík þrátt fyr­ir að fáir múslim­ar búi í ríkj­un­um tveim­ur.

Í lok pall­borðsum­ræðanna lagði Berg­ur Ebbi til að Ísland hætti að bera sig sam­an við önn­ur ríki í Evr­ópu og Banda­rík­in. Held­ur ættu Íslend­ing­ar að snúa sér að öðrum ríkj­um í sam­an­b­urði á andúð í garð inn­flytj­enda. 

Á Íslandi séu 15% vinnu­afls út­lend­ing­ar og 9% íbúa séu af fyrstu eða ann­arri kyn­slóð inn­flytj­enda. Hér ætti að skoða þetta út frá elítu­hug­mynd­inni um Íslend­ing­inn og sinnu­leysi hans gagn­vart þess­um hópi.

Berg­ur Ebbi seg­ir að Íslend­ing­ar eigi hér miklu meira sam­eig­in­legt með fá­menn­um ríkj­um og auðugum eins og Kat­ar og fleiri ol­íu­ríkj­um. Lönd­um eins og Íslandi, þar sem vinnu­aflið er flutt inn og öll­um er í raun og veru sama um það. Þannig að lönd­in skora ekki hátt á kvarðanum yfir hat­ur á inn­flytj­end­um ein­fald­lega vegna þess að fólki er ná­kvæm­lega sama um far­and­verka­menn­ina sem þar starfa.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert