Var ókunnugt um vistun á Sogni

Sindri Þór Stefánsson.
Sindri Þór Stefánsson.

Engin gæsluvarðhaldsfangi á vegum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er í dag vistaður á Sogni. Þetta segir Hulda Elsa Björg­vins­dótt­ir á ákæru­sviði lög­regl­unn­ar. „Við vissum ekki til þess að verið væri að vista gæsluvarðhaldsfanga í opnum fangelsum,“ segir hún og kveðst telja að vistun gæsluvarðhaldsfanga í opnu fangelsi verði að eiga sér stað í samráði við ákærandann.

„Það er hins vegar alveg  öruggt að enginn gæsluvarðhaldsfangi á vegum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er í dag vistaður á Sogni,“ segir Hulda Elsa.

Gefin hefur verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur gæsluvarðhaldsfanganum Sindra Þór Stef­áns­syni, sem strauk úr fang­els­inu á Sogni í fyrradag og flúði land til Svíþjóðar. Nokkra furðu hefur vakið að Sindri Þór hafi verið vistaður í opnu fangelsi. Sagði Páll Winkel fangelsismálastjóri í viðtali í Kastljósinu að ekkert hafi bent til að strokhætta væri af Sindra Þór og sam­setn­ing fanga­hóps­ins á Íslandi geri það að verk­um að fang­els­is­mála­yf­ir­völd þurfi að for­gangsraða inn í fang­elsið.

Í ársskýrslu fangelsismálastofnunnar fyrir 2016 kemur fram að gæsluvarðhaldsvistun á Sogni hafi numið 181 degi 2015, 388 dögum árið 2016 og í fyrra voru dagarnir 248. Ekki kemur hins vegar fram í þessum tölum hversu marga einstaklinga sé um að ræða.

Spurð hvort lögregla hafi rætt við málið við Fangelsismálastofnun segir Hulda Elsa ekki hafa reynst þörf á því enn, þar sem enginn fangi á þeirra vegum sé á Sogni núna. Það sé þó tvímælalaust full ástæða til að ræða það mál svo þetta gerist ekki aftur.

Vakið hefur athygli að Sindri Þór hefur lokað Facebook-síðu sinni, sem var opin í gær. Að sögn DV var Sindri Þór virkur á Facebook um hádegisbil í dag og má draga þá ályktun að hann hafi á þeim tímapunkti verið að loka síðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert