Enginn flugrekstraraðili sem heyrir undir flugmálayfirvöld á Íslandi notar hreyfla af tegundinni CFM56-7B sem sprakk fljótlega eftir flugtak þotu Southwest Airlines í gær.
Þetta kom fram í svörum íslenskra flugrekstraraðila við fyrirspurn mbl.is.
„Það hefur enn ekki komið fram að Evrópuríkin ætli að skoða þetta sérstaklega, það eru fyrst og fremst Bandaríkin sem eru að skoða þetta með tillit til þessa slyss sem varð. Íslensk flugmálayfirvöld fylgjast með framvindunni og hver hún verður,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu við mbl.is.
Bandarísk flugmálayfirvöld, FAA, ákváðu í gær að skoða þurfi 220 hreyfla af tegundinni CFM56-7B vegna atburða gærdagsins.
Á heimasíðu framleiðanda CFM56-7B hreyflanna segir að þeir séu af nýrri kynslóð hreyfla fyrir Boeing 737 og séu með mesta áreiðanleikann, lengsta endingartímann og einfaldastir í viðhaldi í sínum flokki.