Þór Saari, hagfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, hefur sagt skilið við Pírata en tilefnið er val á nýju bankaráði Seðlabanka Íslands í gær. Þór var fulltrúi Pírata í ráðinu en var ekki tilnefndur af flokknum til áframhaldandi setu innan þess.
„Þar sem þingflokkur Pírata hefur vikið frá þeirri óskráðu en mikilvægu reglu að skipa fulltrúa sína í ráð og nefndir á faglegum og þekkingarlegum forsendum og grunngildi Pírata virðast orðin lítið meira en skraut, þá hef ég ákveðið að yfirgefa þetta stefnulausa skip sem Pírataskútan er orðin,“ segir Þór á Pírataspjallinu á Facebook.
Þór segir þar ennfremur að þingflokki Pírata hafi verið sent bréf um úrsögn hans. Þakkar hann samstarfið sem hafi verið „ánægjulegt en þó enn meira áhugavert.“ Talsverðar umræður hafa skapast um yfirlýsingu Þórs sem þingmenn Pírata hafa meðal annars blandað sér í. Vísa þeir því á bug að Píratar hafi staðið ófaglega að tilnefningu í bankaráðið.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir að Píratar hafi þannig tilnefnt Jacky Mallett, doktor í tölvunarfræði sem unnið hafi við greiningar á peningakerfum, sem aðalmann og Ólaf Margeirsson, doktor í hagfræði, sem varamann. „Þetta er algjörlega framúrskarandi fólk að öllu leyti, og kann sitt fag svo ekki verði um villst.“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tekur í sama streng. Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík, blandar sér ennfremur í umræðuna og segir: „Fólk sem fer út á slíkum forsendum var aldrei inni á réttum forsendum.“
Þór var kjörinn á þing 2009 fyrir Borgarahreyfinguna, en meirihluti þingmanna hennar sleit hins vegar tengslin við flokkinn þá um sumarið og stofnaði Hreyfinguna. Þar á meðal Birgitta Jónsdóttir sem síðar stofnaði Pírata. Hann sat á þingi til 2013 og gekk síðar til liðs við Pírata.