Lífeyrissjóðir landsins munu þurfa á meiri gjaldeyri að halda en sem nemur viðskiptaafgangi ætli þeir að auka hlutfall erlendra eigna úr 25% í 40% á næstu 20 árum, samkvæmt sviðsmynd frá greiningardeild Arion banka.
„Miðað við núverandi samsetningu eigna þarf að breyta um 600 milljörðum króna af innlendum eignum í erlendar. Það verður eflaust ekki gert á skömmum tíma heldur þannig að nýtt ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna leitar að stórum hluta úr landi, eins og raunin varð í fyrra þegar þeir fjárfestu fyrir 119 milljarða króna erlendis,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, í samtali í ViðskiptaMogganum í dag.
Til þess að fjárfesta erlendis þurfa lífeyrissjóðir gjaldeyri. Hann bendir á að í fyrra hafi viðskiptaafgangurinn verði svipaður og fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis. „Að því gefnu að viðskiptaafgangurinn dragist saman, sem við gerum ráð fyrir, mun hann ekki duga til þess að mæta þörf lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis nema annaðhvort gengi krónunnar veikist, sem eykur viðskiptaafgang, eða erlend fjárfesting hér á landi vegi upp á móti.“