Háskólamenntuðum landsmönnum á aldrinum 25–64 ára hefur fjölgað um 14,7 prósentustig frá árinu 2003 en 42,4% íbúa í þessum aldurshópi höfðu lokið háskólamenntun árið 2017, alls 73.600. Á sama tíma fækkaði þeim sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun um rúmlega 11 prósentustig og voru þeir um 39.700 árið 2017, tæplega 23% íbúa á aldrinum 25–64 ára. Hægari breytingar voru á fjölda þeirra sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun en fjöldinn hefur verið á bilinu 35–39% íbúa á aldrinum 25–64 ára frá árinu 2003.
Konum með háskólamenntun á aldrinum 25–64 ára hefur fjölgað hraðar en körlum frá árinu 2003. Á síðastliðnum 14 árum hefur konum með háskólamenntun fjölgað um rúm 20 prósentustig og var um helmingur kvenna á aldrinum 25–64 ára með háskólamenntun árið 2017.
Á sama tímabili hefur körlum með háskólamenntun fjölgað um tæplega 10 prósentustig og voru tæplega 35% karla á aldrinum 25–64 ára með háskólamenntun árið 2017. Hlutfall háskólamenntaðra var hæst í aldurshópnum 30–49 ára, 39% hjá körlum en tæp 60% hjá konum.
Hins vegar voru nærri tvöfalt fleiri karlar en konur á aldrinum 25–64 ára með doktorspróf, 1.400 karlar á móti 800 konum, samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.
Menntunarstig íbúa á landsbyggðinni var talsvert lægra en íbúa á höfuðborgarsvæðinu árið 2017, líkt og fyrri ár. Tæplega 32% íbúa á landsbyggðinni á aldrinum 25–64 ára höfðu eingöngu lokið grunnmenntun og var það næstum tvöfalt hærra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu (17,5%).
Þróunin á landsbyggðinni er þó sú sama og á höfuðborgarsvæðinu, þar sem sífellt fleiri sækja sér háskólamenntun. Mestur munur eftir búsetu í aldurshópnum 25–64 ára var á meðal háskólamenntaðra karla, en þeir voru rúmlega 43% íbúa á höfuðborgarsvæðinu en tæplega 20% íbúa á landsbyggðinni.
Atvinnuþátttaka var mest á meðal háskólamenntaðra einstaklinga í aldurshópnum 25–64 ára, tæplega 95% árið 2017. Meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun var atvinnuþátttakan rúmlega 91% en minnst var hún á meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, tæplega 79%.
Atvinnuleysi var mest hjá konum sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun, 2,3%. Lægst var atvinnuleysið meðal kvenna sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, 1,3%.