„Hann er orðinn 103 ára en ern og á róli. Reykir pípu og fær sér viskí og ákavíti. Segir það halda sér heilbrigðum og harðneitar að taka öll lyf sem honum eru rétt.“
Þannig lýsir kvikmyndagerðarmaðurinn Helgi Felixson söguhetjunni í sjónvarpsmyndinni Fyrstu 100 árin eru verst sem hann er að leggja lokahönd á, Ib Árnasyni Riis, sem þekktastur er fyrir að hafa verið gagnnjósnari Breta á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni.
Ib er íslenskur, ættaður frá Ísafirði, en ólst upp í Danmörku. Eftir stríð settist hann að í Bandaríkjunum og býr þar enn. Helgi hitti hann fyrst árið 2006 og hefur verið í reglulegu sambandi við hann síðan. „Myndin byggir á fjórum heimsóknum til hans í Kaliforníu og í henni segir hann sína sögu,“ segir Helgi, en þess má geta að þeir Ib eru blóðtengdir. Faðir Ibs og afi Helga voru bræðrasynir.
Helgi segir Ib hafa farið lítillega aftur á þessum tólf árum sem þeir hafa verið í sambandi en hann sé þó merkilega brattur miðað við aldur og fyrri störf. „Hann segir fyrstu 100 árin hafa verið verst; allt eftir það hafi bara verið gott,“ segir Helgi hlæjandi. Ib talar fína íslensku, sérstaklega í ljósi þess að hann hefur ekki búið hér á landi í meira en sjö áratugi, en samtölin í myndinni fara eigi að síður fram á ensku enda Ib liðugri á þeirri tungu.
„Fókusinn í myndinni er á stríðið. Úr því hann talaði íslensku þótti Þjóðverjum upplagt að senda Ib hingað til að njósna fyrir sig. Hann var því skólaður til, drifinn í kafbát og skotið á land á Langanesi í marsmánuði 1942. Í myndinni ræði ég meðal annars við manninn sem tók á móti honum þar, Jósep Friðriksson frá Felli. Náði því áður en hann lést. Hann gaf góða lýsingu á því hvernig Ib var á sig kominn þegar hann knúði dyra á Felli,“ segir Helgi.
Við komuna til Íslands gaf Ib sig strax fram við Breta og var í framhaldinu sendur með skipi til Bretlands, þar sem hann var skólaður til í gagnnjósnum. Að því búnu sneri hann aftur til Íslands og dvaldist hér á landi uns stríðinu lauk. Þjóðverja virðist ekki hafa grunað neitt, alltént verðlaunuðu þeir Ib fyrir vel unnin störf í stríðslok.
Nánar er rætt við Helga Felixson um myndina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.