Vill fá svör um hæfi sveitarstjórnarmanna og tilboð og aðkomu Vesturverks

VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja …
VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja stíflur við fimm fjallavötn. mbl.is/Golli

Skipulagsstofnun hefur sent Árneshreppi á Ströndum erindi þar sem óskað er eftir svörum um atriði er varða form og afgreiðslu aðalskipulagsbreytinga vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Spyr stofnunin m.a. um hæfi fulltrúa í sveitarstjórn, tilboð framkvæmdaaðila um samfélagsverkefni og innviðauppbyggingu og hvort skipulagstillagan hafi verið unnin af þeim aðila.

Þá hefur stofnunin jafnframt til skoðunar efni og framsetningu skipulagsbreytinganna og mun ef tilefni er til kalla eftir frekari viðbrögðum sveitarfélagsins þar um þegar brugðist hefur verið við þeim spurningum sem þegar hefur verið til þess beint.

Aðalskipulagsbreyting vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar var samþykkt í sveitarstjórn Árneshrepps 30. janúar. Gert hefur verið ráð fyrir virkjun í aðalskipulagi hreppsins í nokkur ár en með breytingunum var iðnaðarsvæði fært til, heimild fyrir starfsmannabúðum bætt við, íbúðarsvæði innan virkjunarsvæðis fellt út og vegir um virkjunarsvæðið skilgreindir sem og efnistökusvæði.

Í Árneshreppi eru tæplega fimmtíu manns með lögheimili og er það fámennasta sveitarfélag landsins. Í sveitarstjórn eiga fimm fulltrúar sæti og greiddu þrír þeirra atkvæði með samþykkt tillögunnar en tveir voru á móti.

Vesturverk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, hyggst reisa 55 MW virkjun á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi. Hvalárvirkjun er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar um nýtingu og verndun landssvæða og umhverfismat virkjunar hefur þegar farið fram. Enn liggur ekki fyrir hvernig rafmagnið yrði leitt frá virkjuninni og inná meginflutningskerfi raforku og því hefur umhverfismat á þeim þætti ekki farið fram.

Áður en hægt er að gefa út framkvæmdaleyfi, sem er í höndum sveitarstjórnar, þurfa aðalskipulagsbreytingar að liggja fyrir, staðfestar af Skipulagsstofnun.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Skipulagsstofnun barst í byrjun mars erindi Árneshrepps þar sem óskað var staðfestingar á aðalskipulagsbreytingunni. Með erindi sveitarfélagsins fylgdu bréf og umsögn sveitarstjórnar til þeirra sem gerðu athugasemdir við skipulagstillöguna á kynningartíma. Jafnframt fylgdu erindinu minnisblöð tveggja fulltrúa í sveitarstjórn hreppsins þar sem bent er á nokkur atriði varðandi umfjöllun og málsmeðferð aðalskipulagsbreytingarinnar. Fulltrúarnir tveir greiddu atkvæði gegn samþykkt skipulagstillögunnar á fundi sveitarstjórnar í lok janúar.

Þá barst Skipulagsstofnun einnig erindi frá Rjúkandi, samtökum um umhverfis,- náttúru- og minjavernd í Árneshreppi, í lok mars. Í erindinu kemur fram sú afstaða samtakanna að breytingin sé haldin alvarlegum ágöllum og að Skipulagsstofnun geti ekki staðfest hana óbreytta.

Á kynningartíma tillögunnar í haust bárust sveitarfélaginu athugasemdir frá Landvernd sem snúa m.a. að málsmeðferð og aðkomu framkvæmdaaðila Hvalárvirkjunar.

Ber að fara yfir afgreiðslu sveitarstjórnar

Stofnuninni ber samkvæmt skipulagslögum að fara yfir form og efni varðandi afgreiðslu sveitarstjórnar og gerð skipulagsins. Með hliðsjón af erindi Rjúkandi, athugasemdum Landverndar og minnisblöðum sveitarstjórnarfulltrúanna tveggja hefur Skipulagsstofnun nú óskað eftir svörum sveitarstjórnar um nokkur atriði.

Í erindi stofnunarinnar er bent á að í Árneshreppi fari sveitarstjórn með verkefni skipulagsnefndar. Stofnunin óskar því í fyrsta lagi eftir viðbrögðum sveitarstjórnar við því sem fram kemur í minnisblaði sveitarstjórnarfulltrúanna tveggja um að í fundarboði við upphaf málsins hafi ekki verið tekið fram að fjalla ætti um skipulagsmál, þar með talið að samþykkja skipulagslýsingu.

Einnig óskar stofnunin eftir því að gerð verði grein fyrri aðkomu skipulagsfulltrúa við meðferð málsins.

Aðkoma Vesturverks að skipulagsgerð

Skipulagsstofnun segir að í greinargerð Árneshrepps með svörum við athugasemdum sem komu á kynningartíma tillögunnar komi fram að framkvæmdaaðilinn, Vesturverk, hafi í október árið 2016 óskað eftir heimild sveitarstjórnar til að vinna breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og deiliskipulag vegna Hvalárvirkjunar í samræmi við framlagða skipulagslýsingu. Heimilaði sveitarstjórn skipulagsgerðina og auglýsti í kjölfarið lýsinguna.

Fossinn Drynjandi fellur ofan af Ófeigsfjarðarheiði.
Fossinn Drynjandi fellur ofan af Ófeigsfjarðarheiði. mbl.is/Golli

Í minnisblöðum tveggja fulltrúa í sveitarstjórn Árneshrepps er gerð athugasemd við málsmeðferðina og afgreiðslu skipulagsbreytingarinnar. Líta fulltrúarnir svo á að ekki hafi verið heimilt að fela framkvæmdaaðila að vinna tillögu á breytingu á aðalskipulagi.

Óskar Skipulagsstofnun skýringa á þessari tilhögun og minnir um leið á að ekki er í skipulagslögum gert ráð fyrir að aðrir en sveitarfélagið standi að gerð tillagna á aðalskipulagi. Hinsvegar sé samkvæmt sveitarstjórnarlögum heimilt að innheimta tiltekinn kostnað vegna slíkrar skipulagsgerðar.

Hæfi fulltrúa í sveitarstjórn

Einnig óskar Skipulagsstofnun eftir því að sveitarstjórn bregðist við athugasemdum Rjúkandi þess efnis að oddviti Árneshrepps hafi að mati samtakanna verið vanhæfur við afgreiðslu breytingarinnar á aðalskipulagi vegna fyrri aðkomu að málinu. Einnig er óskað eftir því að veittar verði upplýsingar um inntak og umfang viðskipta eins sveitarstjórnarfulltrúans við Vesturverk.

Í athugasemdum Landverndar við auglýsta skipulagstillögu er því haldið fram að formannmarkar kunni að vera á umfjöllun sveitarstjórnarinnar. Var m.a. bent á að einn sveitarstjórnarfulltrúi, sem tekið hefði þátt í afgreiðslu skipulagsbreytingarinnar, kunni að hafa einstaklingslega og fjárhagslega hagsmuni af því að Hvalárvirkjun verði að veruleika.

Skipulagsstofnun minnir í þessu sambandi á að samkvæmt sveitarstjórnarlögum beri sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

Tilboð um samfélagsverkefni

Í athugasemdum Landverndar kom einnig fram að framkvæmdaaðilinn Vesturverk hafi gefið til kynna opinberlega að hann hyggist veita beinum fjárframlögum til tiltekinna en ótengdra verkefna sveitarfélagsins og hafi þannig reynt að hafa bein áhrif á ákvarðanatöku sveitarstjórnar í skipulagsmálum er varðar hagsmuni sína.

Í fylgigögnum með athugasemd Landverndar er afrit af erindi Vesturverks til Árneshrepps þar sem kemur fram að fyrirtækið sé tilbúið að fara í samningagerð við sveitarstjórn um uppbyggingu ýmissa innviða í sveitarfélaginu samhliða byggingu virkjunarinnar. Þar segir m.a.: „Hér að neðan [er] listi yfir þau samfélagsverkefni semVV gæti komið að, komi til virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði eða þegar framgangur virkjunarframkvæmda hefur verið tryggður.“ Á listanum er að finna ýmis verkefni, s.s. þriggja fasa rafmagnstengingu, ljósleiðaratengingu og hitaveituframkvæmdir.

Tæplega fimmtíu manns eru með lögheimili í Árneshreppi á Ströndum. …
Tæplega fimmtíu manns eru með lögheimili í Árneshreppi á Ströndum. Innan við þrjátíu eru þar með vetursetu. mbl.is/Golli

Í minnisblaði sveitarstjórnarfulltrúanna tveggja er því haldið fram að tilraunir hafi verið gerðar af hálfu framkvæmdaaðila, sem hafi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, til að hafa áhrif á kjörna fulltrúa í málinu. Tilboð framkvæmdaaðila til sveitarstjórnar um fjárhagslegan stuðning við tiltekin verkefni sem nefnd eru í tveimur bréfum (júní 2017 og janúar 2018) teljist óeðlileg, þar með talin hugmynd um byggingu svokallaðrar gestastofu í óbyggðum.

Í erindi náttúruverndarsamtakanna Rjúkandi til Skipulagsstofnunar er vísað til almennra hegningarlaga um að það sé refsivert að gefa, lofa eða bjóða opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning sem hann á ekki tilkall, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans. Jafnframt kemur fram sú afstaða samtakanna að ljóst megi vera að hin svokölluðu samfélagsverkefni séu engin samfélagsverkefni heldur gjafir til fárra aðila.

Skipulagsstofnun óskar eftir upplýsingum um hvenær ofangreind erindi Vesturverks voru afgreidd af sveitarfélaginu og hvaða afgreiðslu þau hlutu. Koma þarf fram hvort og þá hvernig afstaða til þeirra og afgreiðsla tengdist afgreiðslu sveitarfélagsins á skipulagstillögum sem varða Hvalárvirkjun svo sem hvort erindin voru til umfjöllunar og afgreidd á sama fundi og skipulagstillögur varðandi virkjunina.

Getur lagt til synjun eða frestun

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, segir í skriflegu svari til mbl.is að ekki sé óalgengt að óskað sé eftir frekari gögnum frá sveitarfélögum áður en ákvörðun um staðfestingu skipulagsbreytinga er tekin hjá stofnuninni. „Það er þó algengara að slíkt varði efni eða framsetningu skipulagsins fremur en form og afgreiðslu,“ segir hún.

Afgreiðsla á aðalskipulagsbreytingum er með þeim hætti að Skipulagsstofnun þarf að samþykkja þær og birta til gildistöku í Stjórnartíðindum að fengnum fullnægjandi svörum og eftir atvikum breytingum á tillögunni. „Ef hinsvegar reynast vera form- eða efnisgallar sem hamla staðfestingu að mati stofnunarinnar ber henni að afgreiða málið til umhverfis- og auðlindaráðherra og leggja til synjun eða frestun á staðfestingu,“ segir Ásdís Hlökk í svari sínu til mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert