„Þessi maður er nú bara hálfviti, ég held að það sé eina skýringin á þessu. Ég veit ekki hvort hann var fullur en mig grunar það,“ segir Gunnlaugur Sigursveinsson, varaformaður stjórnar Knattspyrnufélags Fjallabyggðar.
Skemmdir voru unnar á knattspyrnuvellinum á Ólafsfirði hinn 31. mars. Þá keyrði ökumaður jeppa inn á völlinn og spólaði hann upp. Að sögn Gunnlaugs átti atvikið sér stað síðdegis á laugardegi, eða um klukkan 18. Ökumaðurinn var erlendur ferðamaður.
„Þetta var skíðamaður. Lögreglan tók af honum skýrslu og honum var svo sleppt,“ segir Gunnlaugur í Morgunblaðinu í dag. „Þetta leit mjög illa út í fyrstu enda var mjög blautt. Nú er farið að þorna og völlurinn lítur betur út. En förin eftir þetta sjást alltaf, jafnvel þó það verði sáð í þetta.“