Umdeild notkun ópíóðalyfja

Misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja er áhyggjuefni á Íslandi.
Misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja er áhyggjuefni á Íslandi. mbl.is/Frikki

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir nauðsynlegt að fækka ópíóðalyfjum í umferð á Íslandi til að reyna að minnka ópíóðafíknivandann. Hann segir lyfin gegna mikilvægu hlutverki ef þau eru rétt notuð, t.d. eftir skurðaðgerðir, við krabbameini og í líknarmeðferð, en telur notkun slíkra lyfja við stoðkerfisverkjum umdeilda.

„Á undanförnum árum hefur notkun þessara lyfja vegna langvarandi stoðkerfisverkja vaxið, eins og t.d. bakverkja. Þar er gagnsemin miklu umdeildari vegna þess að við langvarandi notkun myndar líkaminn þol fyrir þessum morfínskyldu lyfjum og þá getur verið hætta á ávanabindingu. Þá eru það fráhvarfseinkennin sem kalla á meiri notkun ekki síður en verkirnir, þannig að notkunin er umdeild,“ segir Reynir og bætir við að læknar þurfi að endurhugsa slíka notkun.

„Þetta hefur verið að skýrast á undanförnum árum og þetta er eitt af því sem við læknar þurfum að skoða hjá okkur, hvernig við notum þessi lyf í slíkum tilgangi.“

Magn lyfja í hverri pakkningu er einnig áhyggjuefni að sögn Reynis. Hann bendir á að fólk sé útskrifað fyrr heim eftir aðgerðir til að stytta sjúkrahúslegu en slíkt er einungis mögulegt ef hægt er að hafa nægjanlega góða verkjastillingu nokkra daga á eftir. „En þá hefur komið upp það vandamál að lyfin eru ekki til nema í stórum umbúðum þ.e.a.s. of margar töflur,“ segir Reynir. „Það fer alltaf eftir mati hvað fólk vill skrifa mikið út en það hefur verið vandamál að hafa ekki nægilega litlar pakkningar.“ Spurður hvort hann telji nauðsynlegt að takmarka fjölda lækna sem geta skrifað upp á sterk verkjalyf segir hann slíkt ekki vera lausnina. „Við höfum verið að skoða það, en við höldum að vandinn sé annars staðar í dag en að það muni leysa hann. Á þessum tímapunkti er ekki rétt að takmarka þessar ávísanir við sérfræðilækna. Það er spurning um þá sem eru í læknanámi og ávísunarheimildir þeirra og það er kannski full ástæða til þess að takmarka það,“ segir Reynir og bendir á að nauðsynlegt sé að leggja meiri áherslu á lyfjaávísanir í læknanáminu. „Það þarf líka að leggja áherslu á þjálfun í því að skrifa út þessi lyf því að þeir sem eru komnir í vanda með lyfjanotkun eru hópur sem getur verið erfitt að eiga við. Hann getur verið mjög ýtinn og krefjandi og það þarf kannski reyndan lækni til að bregðast við þegar slíkir einstaklingar koma til þeirra.“

Telur Reynir einnig þörf á að allir læknar fái aðgang að lyfjagagnagrunni, sem flestir hafa en ekki allir, til þess að koma í veg fyrir læknaráp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert