Sindri væntanlegur á næstu dögum

Sindri var handtekinn í miðborg Amsterdam í gær.
Sindri var handtekinn í miðborg Amsterdam í gær.

Bú­ast má við því að strokufang­inn, Sindri Þór Stef­áns­son, sem hand­tek­inn var í miðborg Amster­dam í Hollandi í gær, komi til Íslands á næstu dög­um. Þetta seg­ir Þorgils Þorgils­son, lögmaður Sindra. Hann von­ast til að framsals­ferlið verði ekki lengra en vika.

Þorgils ræddi ör­stutt við skjól­stæðing sinn eft­ir hand­tök­una í gær. Hann seg­ist þó enn ekki vita hvort Sindri hafi gefið sig fram við lög­reglu eða hvort hann var hand­tek­inn gegn vilja sín­um. En Þorgils sagði í sam­tali við RÚV fyr­ir helgi að Sindri vildi síst verða hand­tek­inn í öðru landi.

Hann seg­ir að nú fari í gang ákveðið diplóma­tískt ferli þar sem farið er eft­ir evr­ópsk­um framsals­samn­ingi. „Það er reynd­ar mjög mis­jafnt eft­ir lönd­um hve lang­an tíma það tek­ur. Það get­ur tekið mjög stutt­an tíma í Hollandi ef allt geng­ur vel. Ég veit ekki hversu lang­an tíma þetta mun taka en ég er að gera mér von­ir um ein­hverja daga til kannski viku.“

Þorgils seg­ir óráðið hvort hann fari út til Sindra, en það fer eft­ir aðstæðum. Hann seg­ir mikið óvissu­ástand vera í gangi núna.

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs, vonast til að framsalsferlið taki …
Þorgils Þorgils­son, verj­andi Sindra Þórs, von­ast til að framsals­ferlið taki skamm­an tíma.

Spurður um mynd sem Hafþór Logi Hlyns­son, vin­ur Sindra, birti á In­sta­gram í gær und­ir myllu­merk­inu #teamsindri, seg­ist hann bara hafa séð hana í fjöl­miðlum. Hann viti því ekki hvort upp­lýs­ing­ar á sam­fé­lags­miðlum hafi leitt lög­reglu á spor Sindra. Mynd­in sýn­ir Hafþór og Sindra við þriðja mann, Vikt­or Inga Sig­urðsson, úti á götu í Amster­dam.

Sindri strauk úr fang­els­inu á Sogni aðfaranótt þriðju­dags í síðustu viku og komst með flugi til Svíþjóðar áður en upp komst um strok hans. Hann virðist hafa ferðast þaðan til Amster­dam.

Sindri sendi Frétta­blaðinu yf­ir­lýs­ingu í síðustu viku og sagðist hafa talið að hann væri frjáls ferða sinna þegar hann yf­ir­gaf Sogn og vísaði til þess að gæslu­v­arðhalds­úrsk­urður hefði ekki verið í gildi á þeim tíma.

Hann var leidd­ur fyr­ir dóm­ara á mánu­dag í síðustu viku, dag­inn sem úr­sk­urður­inn féll úr gildi, en dóm­ari tók sér sól­ar­hrings­frest til að ákveða sig. Sindri sagðist í kjöl­farið hafa verið upp­lýst­ur um að í raun væri hann frjáls ferða sinna, en að hann yrði hand­tek­inn ef hann yf­ir­gæfi fang­elsið án skýr­inga.

Sagðist hann jafn­framt geta verið á flótta eins lengi og hann vildi. Hann væri kom­inn í sam­band við fólk sem væri til­búið að skjóta skjóls­húsi yfir hann, út­vega hon­um far­ar­tæki pen­inga og fölsuð skil­ríki. Hann vildi hins veg­ar frek­ar tak­ast á við málið á Íslandi og ætlaði því að koma heim fljót­lega.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert