„Ömurlegt að horfa upp á þetta“

Slökkvistarf stendur enn yfir í Perlunni.
Slökkvistarf stendur enn yfir í Perlunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það lítur út fyrir að íshellirinn okkar sé í lagi og að jöklasýningin okkar sé í lagi,“ segir Gunnar Gunnarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Perlu norðursins, í samtali við mbl.is. Eldur kom upp í hitaveitutanki Perlunnar í dag sem verið er að innrétta sem stjörnuver. Enginn búnaður var inni í tanknum en ljóst er að fyrirtækið mun verða fyrir talsverðu tjóni vegna eldvoðans. 

Frétt mbl.is: Eldur í Perlunni

Perla norðursins er með starfsemi í tveimur hitaveitutönkum Perlunnar. Annar tankurinn er nýtt­ur und­ir ís­helli og sýn­ingu um jökl­ana á Íslandi og líkt og fyrr segir er verið að inn­rétta hinn fyr­ir stjörnu­ver.

„Við vitum ekki nákvæmlega hver staðan er,“ segir Gunnar, en hann telur að aðstæður skýrist þegar líða fer á kvöldið. Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu vinnur að því að ráða niðurlögum eldsins. Miklu vatni hefur verið dælt inn á tankinn þar sem erfiðlega gengur að ná til eldsins vegna járnklæðningar utan á byggingunni. „En við eigum eftir að sjá hvaða áhrif vatnið og reykurinn hefur,“ segir Gunnar.  

Frétt mbl.is: Allt tiltækt slökkvilið kallað út

Þá segir hann það vissulega lán í óláni að eldurinn hafi komið upp í tanki þar sem engin starfsemi er. Iðnaðarmenn voru að vinna á svæðinu fyrr í dag og talið er að eldurinn hafi kviknað út frá störfum þeirra.

Frá undirritun samn­ings um kaup Reykja­vík­ur­borg­ar á tveim­ur hita­veitutönk­um við …
Frá undirritun samn­ings um kaup Reykja­vík­ur­borg­ar á tveim­ur hita­veitutönk­um við Perluna í apríl. Frá vinstri: Inga Dóra Hrólfs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Veitna, Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri og Gunn­ar Gunn­ars­son, framkvæmdastjóri Perlu norðurs­ins. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Opnun nýrrar náttúrusýningar frestast líklega

Til stóð að opna nýja náttúrusýningu í einum tankinum í næstu viku en Gunnar segir að það verði að endurskoða í ljósi eldvoðans. „Ég er bara bjartsýnn að eðlisfari og vona að þetta sé betra en það lítur út fyrir að vera. En auðvitað er ömurlegt að horfa upp á þetta en við þurfum að sjá hvað við getum gert í þessu, ég veit ekki hvert tjónið er.“

Gunnar er fyrst og fremst þakklátur fyrir skjót viðbrögð slökkviliðs og allra sem koma að útkallinu. „Við eigum frábært lið slökkviliðs og lögreglu sem tæklar aðstæður eins og þeir gerðu. Ég er þakklátur fyrir að eiga svona fólk.“

Eldur kom upp klæðningu hitaveitutanks í Perlunni í dag.
Eldur kom upp klæðningu hitaveitutanks í Perlunni í dag. mbl.is/Magnús Heimir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert