10,5 milljarðar í hjúkrunarrými á næstu árum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum í Höfða. mbl.is/Valli

Á næstu fimm árum er áformað að ráðast í uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu fyrir 10,5 milljarða króna. Á að byggja 300 hjúkrunarrými til viðbótar við þau áform sem þegar hafa verið kynnt, en hlutur ríkisins er tæplega níu milljarðar króna. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti áætlunina á fundi í Höfða nú rétt í þessu.

Áður hafði verið kynnt uppbygging og endurbætur á hjúkrunarrýma á árunum 2019 til 2023. Með þessu átaki núna verður samtals fjöldi hjúkrunarrýma sem byggja á upp eða bæta 790 talsins. Verður aðbúnaður bættur á um 240 hjúkrunarrýmum en þeim verður fjölgað um 550 á tímabilinu.

Svandís kynnti áætlunina í upphafi þriggja daga nýsköpunarvinnustofu um áskoranir í öldrunarþjónustu sem haldin er í samvinnu velferðarráðuneytisins, borgarstjóra, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Til þátttöku og samráðs á vinnustofunni voru boðaðir fulltrúar Landssambands eldri borgara, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Alzheimersamtakanna.

Haft er eftir Svandísi í tilkynningu vegna átaksins að kallað hafi verið eftir því að blásið yrði til sóknar í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Þá muni þetta flýta fyrir útskrift af spítölum sem þannig geti sinnt betur sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. „Þegar hjúkrunarrýmum fjölgar hefur það áhrif á lífsgæði aldraðra sem eru á biðlistum eftir slíkum rýmum, oft við erfiðar og ófullnægjandi aðstæður. þetta styrkir stöðu Landspítalans til að sinna sérhæfðri heilbrigðisþjónustu þar sem útskriftir sjúklinga ganga greiðar fyrir sig og aukið svigrúm skapast hjá heilsugæslu og sveitarfélögum til að sinna betur þjónustu við aldraða sem sannarlega geta verið heima með góðum stuðningi,“ er haft eftir Svandísi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert