Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt formlega beiðni Breiðabliks um að lagt verði gervigras á Kópavogsvöll, uppbygging verði á keppnis- og æfingasvæði fyrir frjálsar íþróttir og að gervigras á Fagralundi verði endurnýjað.
Á fundi bæjarráðs í morgun var lögð fram greinargerð sviðsstjóra stjórnsýslusviðs, menntasviðs og umhverfissviðs bæjarins um gervigras á Kópavogsvöll og tillaga um að lagt verði gervigras á völlinn næsta vor.
Einnig voru lagðar fram tillögur um að keppnis- og æfingaaðstaða frjálsra íþrótta verði byggð upp á kastsvæði vestan áhorfendastúku Kópavogsvallar.
Pétur Hrafn Sigurðsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu um að ákvörðun í málinu yrði frestað um eina viku milli bæjarráðsfunda og að upplýsingar skyldu lagðar fram á næsta bæjarráðsfundi um hvort viðauka þurfi við núverandi fjárhagsáætlun og þá hver sú upphæð gæti veri.
Tillagan var felld.
„Við styðjum fyrirhugaða uppbyggingu á gervigrasvelli á Kópavogsvelli. Við lýsum hins vegar vonbrigðum með að ekki skuli hafa verið fallist á frestunartillögu um eina viku. Það að fá upplýsingar um áætlaðan kostnað sem til fellur á þessu ári er í samræmi við ábyrga fjármálastjórnun,“ segir í bókun minnihluta bæjarstjórnar Kópavogs.
Í bókun meirihluta bæjarstjórnar kom þetta fram:
„Fyrir liggur ítarleg kostnaðaráætlun tveggja verkfræðistofa þar sem farið er yfir alla verkþætti við framkvæmdir við Smárann og Fagralund þar sem ólíkir valkostir voru bornir saman. Jafnframt er ljóst að í fjárhagsáætlun þessa árs er gert ráð fyrir viðhaldsframkvæmdum á gervigrasvelli við Fagralund. Samþykkt bæjarráðs byggir á þessari vinnu og ljóst að framkvæmdir næsta árs þarf að taka inn í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019.“