Tilkynnt var í dag um samstarfsverkefni á milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um skipulegt mat á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.
„Unnar verða rannsóknir á völdum friðlýstum svæðum í sumar, sem ætlað er að draga fram hver efnahagsleg áhrif þeirra eru, ekki síst svæðisbundin og fyrir nærliggjandi byggðir. Friðlýst svæði á Íslandi eru mörg afar fjölsótt og skipta miklu í beinu efnahagslegu samhengi, ekki síst í tengslum ferðaþjónustu,“ segir ennfremur.
Fram kemur að þessi vinna byggi meðal annars á sambærilegri rannsókn sem unnin hafi verið á Þjóðgarðinum Snæfellsjökli á vegum Háskóla Íslands. Jafnframt byggi hún á viðurkenndri aðferðafræði sem aðrar þjóðir hafi beitt við slíkar greiningar.
„Með þessari vinnu er ætlunin að auka skilning á áhrifum friðlýstra svæða, gildi þeirra og hlutverki í hagrænu samhengi.“