Reykjavíkurborg mun á næstu vikum hefja viðræður við fyrirtæki um uppsetningu biðskýla og auglýsingastanda í borginni. Trúnaður gildir um viðkomandi fyrirtæki.
„Þetta er heimild frá innkauparáði borgarinnar til að viðhafa samningskaup. Það komu engin tilboð og því fáum við þessa heimild til að reyna að ná samningum við áhugasama aðila á grundvelli útboðsgagna. Það er aðili við borðið sem er að vinna í því að skila inn tilboði, aðili sem ætlaði sér að bjóða í verkið en náði ekki að klára á sínum tíma,“ segir Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar. Hann kveðst bundinn trúnaði um viðkomandi.
Fyrr í apríl var lagt fram erindi frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar varðandi umrædda heimild, þar sem engin tilboð bárust í opnu útboðsferli. Útboðið var opnað fimmtudaginn 8. mars.