Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verða gestir Bjartar Ólafsdóttur í þjóðmálaþættinum Þingvelli á K100 í fyrramálið.
„Þátturinn á morgun verður eðlilega um borgarmálin,“ segir Björt, en fjórar vikur eru þar til gengið verður til sveitarstjórnarkosninga.
Fjárhagsstaða borgarinnar, umhverfismál og skólamál verða meðal annars tekin til umræðu sem og ánægja borgarbúa eftir hverfum. Þá verður einnig rýnt í skoðanakannanir um fylgi flokkanna, en meirihluti Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna heldur naumlega velli ef marka má niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir Morgunblaðið.
Til stendur að fá oddvita fleiri flokka sem bjóða fram í borginni í vor, en Björt segir að það skýrist á næstu dögum. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sér um þáttastjórn á móti Björt.
Þingvellir er á dagskrá alla sunnudaga klukkan 10 á K100 og eru pólitík og málefni líðandi stundar í forgrunni í þættinum.