Sumarfrí Íslendinga hefur lengst og breyst í gegnum áratugina, með nýjum áfangastöðum, nýjum græjum í fríið og mismunandi hugmyndum hverju sinni um hvað raunverulegt frí sé. Sunnudagsblað Morgunblaðsins tók léttan snúning á sumarfríi landsmanna gegnum tíðina.
Það tók „ekki nema“ 9 daga sjóferð að skreppa til Kaupmannahafnar á 4. áratugnum og var ferðin þó kölluð hraðferð. Innanlandsferðir voru það sem fyrstu sumarfríin snerust um, bæði vegna samgangna og fjárhags. Þær voru þó ekki svo einfaldar, fáir áttu bíla og gististaðir af skornum skammti.
Á fjórða áratugnum tóku verslunarmenn í borginni eftir breytingu. Silli og Valdi sáu að fleiri og fleiri komu til þeirra áður en lagt var af stað til þess að birgja sig upp með nesti. Þótt ferðirnar væru bara nokkrir dagar, helgi eða einn dagur var þetta nýmæli. Enda þurftu margir að vinna happdrættisvinning til að komast í sumarfrí, eins og Reykvíkingur nokkur sem vann 5.000 krónur 1935 og notaði peninginn til að taka sér sumarfrí og ferðast um landið með konu sinni.
Aðbúnaður fyrir alla þessa Íslendinga sem voru að öðlast réttindi til að fá sumarfrí var lélegur. Þróunin hélst ekki í hendur, fólk fékk frí en gat ekki auðveldlega fundið stað til að dvelja á nema það hefði pantað með miklum fyrirvara. Þau sumargistihús sem voru til voru yfirfull allt sumarið á 5. áratugnum og auk þess sem vantaði gistihús vantaði nýja stétt fólks til að vinna við það. Menn veltu því fyrir sér hvort sækja ætti til útlanda reynda gistihússtjóra, yfirþjóna og matreiðslumenn eða senda fólk út í nám, skapa yrði nýja atvinnugrein.
Aðeins allra yngstu kynslóðum finnst eðlilegur hlutur að fara í flug, eldri kynslóðir, þar með talin undirrituð, muna eftir því hversu hátíðlegt það var að fara í flug.
Sérstök dress voru keypt fyrir ferðina, fjölskyldan var jafnvel búin að sauma samlitan alklæðnað á alla í stíl til að vera í fluginu. „ Flugdress “ var alvöru fyrirbæri. Ég var áskrifandi að Æskunni og ég man að þegar blaðið barst varð að geyma blaðið í plastinu í nokkrar vikur, mátti ekki opna það fyrr en 10. júlí, „í flugvélinni“ þar sem það var rifið upp við hátíðlega athöfn. Meðferðis var að sjálfsögðu þurrkaður saltfiskur - til að „tipsa hótelstarfsmenn með“ en slíkt athæfi virðist hafa verið sjálfsagt meðal margra hérlendis og er hjá sumum enn.
Umfjöllunin birtist í fullri lengd í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.