Ferðamönnum í Dimmuborgum fjölgar

Dimmuborgir eru fjölsóttur ferðamannastaður. Þar er náttúran viðkvæm en mikil …
Dimmuborgir eru fjölsóttur ferðamannastaður. Þar er náttúran viðkvæm en mikil innviðauppbygging hefur átt sér þar stað á síðustu árum. Af Wikipedia

Í vetur hefur ferðamönnum í Mývatnssveit haldið áfram að fjölga þó að vöxturinn sé hægari en undanfarin ár, að sögn Davíðs Örvars Hanssonar, stöðvarstjóra Umhverfisstofnunar á svæðinu. Til að styðja við ferðaþjónustu allt árið hefur Umhverfisstofnun hafið snjómokstur á á göngustígum helstu ferðamannastaða, landvarsla hefur verið aukin yfir vetrarmánuðina og Mývatnsstofa hefur verið opin í vetur í fyrsta skipti og eru gestir frá áramótum um 3.500.

Davíð segir að talning gesta í Dimmuborgum sýni fjölgun milli ára, hvort sem litið er til mæla sem telja göngufólk inni á svæðinu eða bíla sem koma þar að. Í apríl voru gestir í Dimmuborgum um 1.000 í hverri viku samkvæmt talningar á göngufólki og er það fjölgun frá fyrra ári.

Niðurstaða bílatalningar Rögnvaldar Ólafssonar, sérfræðings við Háskóla Íslands, sýnir að aðsókn dróst saman í janúar og febrúar en jókst svo aftur í mars. Í heildina hafa því fleiri ferðamenn komið á svæðið fyrstu mánuði ársins í ár en í fyrra. Miðað við talningu Rögnvaldar fjölgaði gestum um 430 í mars frá síðasta ári; úr 13.187 í 13.617. Árið 2016 voru þeir 8.871 í þeim mánuði svo fjölgunin hefur verið umtalsverð. „Þannig að það er áframhaldandi fjölgun en líklega er hún hægari eins og mátti kannski búast við eftir hraða fjölgun áranna á undan,“ segir Davíð Örvar.

Davíð Örvar Hansson, stöðvarstjóri Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit.
Davíð Örvar Hansson, stöðvarstjóri Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit.

En þola Dimmuborgir svo mikið álag ferðamanna?

„Dimmuborgir eru í rauninni með sterka innviði til að taka við þessum fjölda ferðamanna,“ segir Davíð. Þar sé nú að finna nokkuð langan kafla malbikaðra stíga. „Sá hluti Dimmuborga þolir því alla þá umferð sem þar nú er.“

Davíð bendir á að Dimmuborgir séu áhugaverðar sem ferðamannastaður að því leyti að eftir því sem lengra er haldið inn á svæðið breytist stígarnir og þar með upplifun ferðamanna. Flestir fari aðeins um svæðið á malbikuðu stígunum en svo taki við malarstígar og loks moldarstígar. „Á þeim stígum ertu næstum því einn í heiminum, jafnvel um mitt sumar. Þannig að þarna ættu allir að geta fengið sitt, eftir því hvað það er sem fólk sækist eftir.“

Davíð segir að áður fyrr hafi færri ferðmenn valdi meiri átroðningi og gróðurskemmdum en nú er. Með markvissri uppbyggingu síðustu árin hefur tekist að bæta úr þessu með þeim hætti að svæðið þolir meiri umferð. „Þetta hefur tekist með aukinni landvörslu annars vegar og úthugsaðri uppbyggingu innviða hins vegar.“

Segir hann landvörsluna frumforsendu því með henni sé m.a. upplýsingum komið á framfæri við ferðamenn og þekkingar á umferðinni aflað. „Í kjölfarið er svo hægt að byggja upp af fenginni reynslu.“

Tölur úr bílatalningu Rögnvaldar Ólafssonar í Dimmuborgum.
Tölur úr bílatalningu Rögnvaldar Ólafssonar í Dimmuborgum. Af Facebook

Sú var tíðin að ferðamenn sóttu Mývatnssveit heim nær eingöngu yfir sumarmánuðina. Þetta hefur nú breyst á örfáum árum. „Mývatnssveitin  kemur prýðilega undan vetri,“ segir Davíð. Síðustu daga hafa landverðir unnið að því að tína upp rusl eftir veturinn, „nánast í bílförmum“. Hann segir Mývetninga svo ávallt standa fyrir hreinsunarátaki á vorin til að gera sveitina hreina fyrir sumarið.

Finnst þér ferðamenn sem koma á þetta svæði bera virðingu fyrir þeirri viðkvæmu náttúru sem þar er að finna?

„Ferðamannahópurinn er mjög blandaður,“ svarar Davíð. „Sumir virðast varla vita hvert þeir eru komnir og hverju þeir eiga von á. Aðrir eru búnir að lesa sér vel til og vita meira um svæðið en margir Íslendingar.“

Stígar í Dimmuborgum hafa verið malbikaðir að hluta og þolir …
Stígar í Dimmuborgum hafa verið malbikaðir að hluta og þolir svæðið því þann ágang ferðamanna sem þar fer nú um.

Hann segir sjö landverði verða að störfum í Mývatnssveit og næsta nágrenni í sumar. Tveir séu að störfum allan ársins hring sem er breyting frá því sem áður var. Þörf hafi verið á því í takt við fjölgun gesta. Hann segir verkefni landvarðanna sífellt vera að fjölga. Að vetri hafi þeir nú það hlutverk að moka snjó af göngustígum til að gera svæðið fært ferðamönnum. Á sumrin, þegar gestakomur margfaldast, séu verkefnin enn fjölbreyttari. „Við erum bara brött fyrir sumarið, þetta lofar góðu,“ segir Davíð.

Facebook-síða friðlýstra svæða í Mývatnssveit

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert