Leigjendum á Íslandi hefur fjölgað um tíu þúsund á síðustu sjö árum og eru í dag um 50 þúsund samtals. Þá greiðir fólk í lægri tekjuhópum um helming tekna sinna í húsaleigu að meðaltali, en hlutfallið er hæst hér á landi miðað við hin Norðurlöndin. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs um leigumarkaðinn sem birt var í dag, en mikill meirihluti aðspurðra telur að það sé óhagstætt að vera á leigumarkaði.
Ekki er líklegt að fækka muni á leigumarkaði á næstunni, en 85% þeirra sem eru á leigumarkaði telja líklegast að þeir verði þar áfram á næstunni. Þá fjölgaði landsmönnum á síðasta ári um rúmlega tíu þúsund og voru aðeins 1.768 nýjar íbúðir byggðar á sama tíma.
Húsnæðiskostnaður hefur verið talinn íþyngjandi þegar hann nemur 40% eða meira af ráðstöfunartekjum og hefur hlutfallið verið yfir þeirri tölu hjá lágtekjuhópum frá því árið 2009. Eftir hrun hækkaði húsnæðiskostnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum mikið og fór upp í 59% árið 2012. Lækkaði hann árið eftir en fór svo aftur upp í 55% árið 2015. Könnunin núna nær yfir árið 2016 og er hlutfallið komið niður í 50%.
Til samanburðar er hlutfallið tæplega 50% í Noregi, en í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð er það tæplega 45%.
Samtals eru leigjendur um 18% þjóðarinnar, en 71% búa í eigin húsnæði. Þá býr um 10% í foreldrahúsum. Ungt fólk er fyrirferðarmest á leigumarkaðinum, en 33% fólks á aldrinum 18-24 ára býr í leiguhúsnæði og 32% þeirra sem eru 25-34 ára. Þá er mun líklegra að tekjulægri einstaklingar búi í leiguhúsnæði. Af þeim sem hafa 200-399 þúsund í mánaðarlaun eru 65% sem búa í eigin húsnæði á móti 85% þeirra sem eru með 600-799 þúsund í tekjur á mánuði. Marktækur munur er einnig á fjölda þeirra sem eru á leigumarkaði með undir 400 þúsund krónur samanborið við þá sem eru með tekjur yfir 600 þúsund.
Í skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að einungis 7% aðspurðra telji framboð leiguhúsnæðis mikið og hefur hlutfallið farið lækkandi frá því árið 2011 þegar 18% aðspurðra sögðu framboðið mikið. Húsaleiga hefur hækkað um 82% frá árinu 2011, en á sama tíma hafa laun hækkað um 66%.
Þá kemur fram að fjárhagsstaða leigjenda sé mun verri en hjá þeim sem eiga eigin eign. 44% leigjenda segjast geta safnað sparifé á móti 66% fólks sem býr í eigin húsnæði.
Könnun Íbúðalánasjóðs um leigumarkaðinn fór fram í lok febrúar og í byrjun mars. Hún var framkvæmd af Zenter og um var að ræða netkönnun. Úrtakið taldi 2500 einstaklinga, 18 ára og eldri, og svarhlutfall var 58%.