Nýjar íbúðir sem hafa verið að koma á sölu- og leigumarkaðinn að undanförnu hafa verið yfir greiðslugetu lágtekjuhópa, en þessi hópur greiðir í dag um helming af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu samkvæmt nýrri könnun Íbúðalánasjóðs. Una Jónsdóttir, deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði, segir í samtali við mbl.is að eitthvað þurfi að gera fyrir þennan verst setta hóp, en meðal annars sé beðið eftir fyrstu íbúðunum sem voru byggðar fyrir stofnframlög hins opinbera.
Undanfarin ár hefur leigumarkaðurinn stækkað um 10 þúsund manns og telur í dag 50 þúsund einstaklinga. Una segir að fjölgunin stafi ekki síst af fjölda erlendra ríkisborgara sem hafi flutt hingað til lands til að byggja upp innviði og húsnæði sem hér hafi skort. Þarfagreiningar hafi sýnt að mest vöntun sé á húsnæði fyrir fólk sem ekki ætli sér að kaupa húsnæði, hvort sem það er vegna þess að það vilji ekki binda fjármuni í fasteign eða hafi ekki ráð á því.
Staðan í dag er að hennar sögn hins vegar sú að flestar íbúðir sem komi á leigumarkaðinn séu yfir greiðslugetu þess hóps sem er með lægstar tekjurnar og býr jafnframt við minnsta húsnæðisöryggið.
Í könnun Íbúðalánasjóðs er horft til talna frá Eurostat sem sýnir að hlutfall ráðstöfunartekna sem fer í leiguverð er hvergi hærra á Norðurlöndunum en hér þegar kemur að tekjulægsta hópnum. Hlutfallið er hins vegar svipað hér og í viðmiðunarlöndunum þegar kemur að milli- og hátekjuhópum að sögn Unu.