Þorsteinn sagði krónuna auka vaxtakostnað

Þorsteinn Víglundsson sagði á Alþingi í dag að sér íslenskar …
Þorsteinn Víglundsson sagði á Alþingi í dag að sér íslenskar kvaðir draga úr samkeppni og auka vaxtakostnað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, spurði á Alþingi í dag hvort þörf væri á sértæku regluverki fyrir fjármálakerfið umfram EES-regluverks sem verið er að innleiða. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, benti á að regluverkið nær ekki til fyrirtækja sem stunda fjármálastarfsemi en falla ekki undir reglur um fjármálafyrirtæki.

Þorsteinn var málshefjandi um sérstaka umræðu á Alþingi í dag um hvítbók um fjármálakerfið. Í ræðu sinni sagði hann smæð íslensku krónunnar og innflæðishöft draga úr virkri samkeppni og stuðla að hærri vaxtakostnaði.

Hann sagði sérstakar kvaðir á fjármálakerfið, svo sem eitt hæsta eiginfjárhlutfall banka í alþjóðlegum samanburði einnig leiða til hærri vaxtakostnaðar og að verið væri að grafa undan gæðum útlánasöfnum bankana með of sértækum og sérstökum kröfum.

Regluverkið ófullnægjandi

„Í ljósi samevrópsks regluverks sem verið er að innleiða, telur forsætisráðherra það heppilegt fyrir samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja að setja þeim séríslenskar reglur eða eigum við að láta duga að innleiða sameiginlegt regluverk EES-markaðarins?“ spurði Þorsteinn úr ræðustól Alþingis, og beindi spurningu sinni að Katrínu.

Katrín sagði að skoða þurfi hvar við teljum Evrópska regluverkið vera fullnægjandi og hvar viljum við ganga lengra. Hún staðhæfði að miklu fleiri aðilar væru komnir með fjármálastarfsemi, heldur en bara hefðbundnir bankar, og sem Evrópska regluverkið nái ekki til. Þá nefndi hún í þessu samhengi að frumvarp um notkun sýndarfjár í hraðbönkum væri væntanlegt.

„Við verðum að taka afstöðu til hluta sem eru ekki hluti af hinu samevrópska regluverki. Ég vil nefna aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi. Í þessu máli hefur Evrópusambandið ekki náð samstöðu um að setja eina reglu um þau mál. Þar þurfa íslensk stjórnvöld að taka afstöðu“ sagði forsætisráðherra

Tafir á gerð hvítbókarinnar

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var tilkynnt í byrjun febrúarmánaðar að fjármála- og efnahagsráðherra hygðist skipa starfshóp sem vinna átti hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi.

Áætlað var að starfshópurinn myndi skila sinni vinnu þann 15. maí næstkomandi, en forsætisráðherra upplýsti í þinginu í dag að hópurinn myndi ekki skila sinni vinnu fyrr en í lok september.

Mark­miðið var sagt vera að skapa traust­an grund­völl fyr­ir umræðu, stefnu­mörk­un og ákvarðana­töku um mál­efni er varða fjár­mála­kerfið, framtíðargerð þess og þróun.

Formaður hópsins er Lárus L. Blöndal, hæstaréttarlögmaður og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins. Aðrir sem í hópnum eru:

  • Guðrún Ögmunds­dótt­ir, for­stöðumaður lausa­fjárá­hættu og fjár­mála­fyr­ir­tækja hjá Seðlabanka Íslands
  • Guðjón Rún­ars­son, lögmaður fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fjár­mála­fyr­ir­tækja
  • Kristrún Tinna Gunn­ars­dótt­ir, hag­fræðing­ur hjá Oli­ver Wym­an í Svíþjóð
  • Sylvía K. Ólafs­dótt­ir, deild­ar­stjóri jarðvarma­deild­ar á orku­sviði Lands­virkj­un­ar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert