Felldu niður tolla á 340 vöruliðum

Kristján Þór Júlíusson segist ekki sammála gagnrýni á tollasamning Íslands …
Kristján Þór Júlíusson segist ekki sammála gagnrýni á tollasamning Íslands við Evrópusambandið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tollasamningur Íslands og Evrópusambandsins sem tók gildi 1. maí felldi niður tolla á rúmlega 340 vörum. „Augljóst að í þessum samningi að hallar á íslenskan landbúnað“ sagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, á Alþingi í dag. Sagði hann að tollasamningur Íslands við Evrópusambandið bjóða upp á mikið ójafnvægi.

Þingmenn Miðflokksins hafa gagnrýnt umræddan tollasamning um tíma, en þingmennirnir lögðu fram þingsályktun í síðasta mánuði þess efnis að samningnum yrði sagt upp.

„ESB fær að flytja til Íslands 230 tonn af sérostum og hvað er sérostamarkaðurinn á Íslandi stór, jú hann er 240 tonn. Þessi 240 tonn eru framleidd í Búðardal og þar starfa 25 manns. Ég spyr: Er pláss fyrir 230 tonn aukalega inn á okkar litla markað? Svarið er nei, að sjálfsögðu ekki. Hvað fáum við Íslendingar í staðinn, við fáum ekkert. Við fáum ekkert að flytja af sérostum til ESB. Ekki neitt,“ sagði Birgir í ræðu sinni.

Þá gagnrýndi hann það að tollfrjálsar innflutningsheimildir Íslands á sérostum taka gildi í einum áfanga, en trappast ekki inn á fjórum árum eins og útflutningsheimildir Íslands til Evrópusambandsins.

Samningurinn, sem tók gildi 1. maí síðastliðinn gerir ráð fyrir því að tollar verði felldir niður á ýmsum sviðum. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, upplýsti að vegna samningsins voru felldir niður tollar á rúmlega 340 tollskránúmerum og lækkaðir á 23. Kristján bætti við að 244 númer báru engan toll áður en samningurinn var gerður.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, vill segja upp tollasamningi við ESB.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, vill segja upp tollasamningi við ESB. Ljósmynd/Alþingi.is

Skort á samráði

Birgir sagðist hafa heimildir fyrir því að Evrópusambandið væri með virkt samráð við hagsmunaaðila þegar samið var við Ísland og staðhæfði að lítið sem ekkert samráð hefði verið haft við íslenska bændur af hálfu samninganefndar Íslands. Sagði hann þetta „verulega ámælisvert.“

Kristján svaraði Birgi og sagði að samningsferlið hefði hafist 2012 að ósk sláturleyfishafa og afurðastöðva í mjólkuriðnaði um að auka markaðsaðgang til Evrópu, en skiptar skoðanir hafi verið um málið.

Birgir fullyrti að samningurinn muni setja íslenska búvöruframleiðslu í erfiða stöðu og að ekki hafi verið gripið til neinna mótvægisaðgerða af hálfu stjórnvalda, þrátt fyrir að starfshópur á vegum landbúnaðarráðherra hafi mælt fyrir því.

Ráðherrann vísaði því á bug að ekki hefði verið gripið til mótvægisaðgerða. Kristján benti á að starfshópurinn kom með 8 tillögur, tvær eru komnar í framkvæmd, þrjár væru í vinnslu og að vinna við þrjár væri ekki hafið.

Segir Brexit forsendubrest

„Hefur sú breyting átt sér stað eftir að samningurinn var undirritaður, að okkar stærsta og besta markaðssvæði, Bretland, er að ganga úr Evrópusambandinu og þar með tollasamningnum“ sagði Birgir og benti á að mikil óvissa sé bundin við stöðu Breta. „Skyrkvótinn okkar sem er ágætur eða rúmlega 3.600 tonn var hugsaður á Bretlandsmarkað. Við vitum ekkert hvað verður um hann, samhliða þessu hefur sterlingspund fallið. Telur Birgir að um forsendubrest sé að ræða.“

„Þingmaðurinn er að vísa til þess að Bretland sé í útgönguviðræðum við Evrópusambandið og ég held að ég geti fullyrt það að ég held að Bretar sjá ekki einu sinni fyrir endann á því samtali milli Evrópusambandsins og Bretlands, því síður Evrópusambandið, hvað þá við Íslendingar sem að sitjum ekki einu sinni þar á hliðarlínunni“ sagði Kristján og tjáði að honum fyndist heldur snemmt að segja til um forsendur þess að samningaviðræður við Bretland yrðu teknar upp af hálfu íslenskra stjórnvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert