Jöklarnir hopa hratt og örugglega

Langjökull gæti tapað 85% af rúmmáli sínu á öldinni, gangi …
Langjökull gæti tapað 85% af rúmmáli sínu á öldinni, gangi sviðsmyndir um loftslagsbreytingar eftir. mbl.is/RAX

Flatarmál íslenskra jökla hefur dregist saman um 500 ferkílómetra frá síðustu aldamótum, eða um 0,35% á ári og gangi sviðsmyndir um loftslagsbreytingar eftir munu þeir halda áfram að minnka. Við lok aldarinnar gæti Langjökull hafa tapað 85% af rúmmáli sínu en Hofsjökull og syðri hluti Vatnajökuls um 60%. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar.

Skýrslan ber heitið Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi og afhenti Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra fyrsta eintak skýrslunnar við kynningu hennar í húsakynnum Veðurstofunnar í dag. Skýrslan er sú þriðja sinnar tegundar, en sú síðasta kom út árið 2008.

Hlýnun gæti orðið allt að 4°C við lok aldar

Samkvæmt skýrslunni er líklegt að það hlýni á landinu fram að miðbiki aldarinnar og á hafsvæðinu umhverfis það. Árin 2046-2055 gætu orðið 1.3-2.3°C hlýrri en árin 1986-2005 voru. Umfang hlýnunnar ræðst þó aðallega af því hversu mikil losun gróðurhúsalofttegunda verður, en hún gæti orðið 4°C fram til loka aldarinnar ef losun er mikil.

Verði hlýnun í samræmi við þær sviðsmyndir sem gera ráð fyrir mestri losun gróðurhúsalofttegunda hverfa allir jöklar á Íslandi á næstu öldum, en skýrsluhöfundar telja að Vatnajökull lifi lengst, að minnsta kosti á hæstu fjallatindum.

„Líklegt er að hlýnunin verði meiri að vetri til en að sumri og nemur munurinn u.þ.b. helmingi af hlýnun á ársgrundvelli. Vísbendingar eru um að hlýnunin verði meiri norðanlands en sunnan og víða um landið verði meira en helmingur sumardaga við lok aldarinnar hlýrri en 15°C,“ segir í skýrslunni.

Að sögn skýrsluhöfunda munu hlýrri sumur og lengri vaxtartími þýða að uppskera af hverri einingu ræktarlands aukist væntanlega í hefðbundnum landbúnaði, garðyrkju og skógrækt og margar nýjar rannsóknir sýna að bæði ræktaðir og náttúrulegir skógar vaxi umtalsvert betur nú en fyrir 1990.

„Þó að hlýnun hér á norðurslóðum fylgi almennt aukin gróska þá eru einnig í náttúrunni ýmis ferli sem hlýnun og/eða gróðurbreytingar geta magnað og haft mikil og óvænt áhrif á bæði ræktarland og útjörð. Dæmi sem eru þegar farin að koma í ljós hérlendis eru aukin tíðni skordýraplága, breytingar á fartíma og beitarhegðun gæsa og álfta, og óvenju-stórir gróðureldar,“ segir í skýrslunni. Einnig er talið að rekja megi samdrátt í bleikjustofninum hérlendis til hlýnunar.

Súrnun sjávar örari hér en víðast hvar

Í skýrslunni er fjallað um súrnun sjávar, sem er miklu örari hér nyrst í Atlantshafi en að jafnaði í heimshöfunum. Því er líklegt að sjórinn hér við land hafi súrnað meira eftir iðnvæðingu en heimshöfin að jafnaði. Verði ekki dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda mun súrnun sjávar halda áfram.

„Kalkmyndandi lífríki er talið einkar viðkvæmt fyrir áhrifum súrnunar,“ segir í ágripi um súrnun sjávar og tekið fram að vegna eiginleika sjávar og lágs sjávarhita sé kalkmettunarstig í hafinu við Ísland og í Norðurhöfum almennt náttúrulega lágt.

Súrnun sjávar er örari nyrst í Atlantshafi en alla jafna …
Súrnun sjávar er örari nyrst í Atlantshafi en alla jafna í heimshöfunum. mbl.is/RAX

„Við þessar aðstæður leiðir súrnun fyrr til undirmettunar kalks heldur en að jafnaði í heimshöfunum. Líklegt er því að neikvæð áhrif súrnunar á lífríki og vistkerfi sjávar komi fyrr fram á íslenskum hafsvæðum en að jafnaði í heimshöfunum.“

Því er talið líklegt að áhrif súrnandi sjávar komi fyrr fram í lífríki hafsins umhverfis Ísland en víðast hvar annarsstaðar. Varað er við því að áhrif á efnahagslega mikilvægar tegundir í lífríkinu geti birst óvænt, eins og gerst hafi í ostrurækt við Kyrrahafsstrendur Norður-Ameríku.

Þá taka skýrsluhöfundar fram að súrnun og hlýnun sjávar geti haft áhrif á framleiðslu í fiskeldi, sem er ört vaxandi atvinnugrein hér á landi.

Ýmis kostnaður fylgi loftslagsbreytingum

Skýrsluhöfundar segja líklegt loftslagsbreytingar hafi ýmsan kostnað í för með sér fyrir íslenskt þjóðfélag, bæði vegna mótvægisaðgerða og til að standa straum af aðlögun þeirra vegna. Þá geti komið til þess að kaupa þurfi losunarheimildir, ef markmið um samdrátt í losun nást ekki.

Loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á heimsvísu og talið er að þau muni aukast. Talið er að um nú þegar þurfi 26 milljónir manna að flytja vegna umhverfisbreytinga, s.s. flóða, þurrka og annarra náttúruhamfara. Loftslagsbreytingar geta því leitt til búferlaflutninga frá þeim svæðum verst verða úti, til svæða sem standa betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka