Oft verið að leika á tilfinningar fólks

Lilja Guðríður Karlsdóttir samgönguverkfræðingur segir góð samgönguverkefni yfirleitt vera „win-win“ …
Lilja Guðríður Karlsdóttir samgönguverkfræðingur segir góð samgönguverkefni yfirleitt vera „win-win“ verkefni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við notum samgöngur á hverjum einasta degi og höfum öll skoðanir á þeim,“ sagði Lilja Guðríður Karlsdóttir samgönguverkfræðingur á Snjallborgarráðstefnu sem haldin er í Hörpu í dag.

Framsaga Lilju bar yfirskriftina „Zero sum hugsun í samgöngumálum - þar sem ávinningur eins þýðir alltaf tap annars. „Zero sum þýðir að ég vinn og þú tapar. Einhver græðir á meðan annar tapar og umræðan verður svarthvít,“ sagði Lilja.

Hún benti á að mun algengara væri að verkefni væru grátóna, flókin og ýmislegt sem spilaði inn í. Sjaldgæft væri að verkefni í samgöngumálum væru þannig að einhver hópur græði á meðan annar tapi.

Gestir á Snjallborgarráðstefnu sem haldin var í Hörpu í dag.
Gestir á Snjallborgarráðstefnu sem haldin var í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Aðförin að fjölskyldubílnum“

„Góð samgönguverkefni eru yfirleitt Win-win verkefni og það sama á við um snjallverkefni,“ sagði Lilja og bætti við að oft gerist það að samgönguverkefni lendi í Zero sum umræðu.

„Aðförin að fjölskyldubílnum.“ Lilja sagði að þessi frasi kæmi yfirleitt upp þegar hið opinbera færi í verkefni sem styrkja aðra ferðamáta. Þá rísi upp hópur fólks sem telur að einkabíllinn tapi á umræddum verkefnum. „Vissulega getur það komið fyrir en oftast eru verkefnin hrein viðbót við stöðuna sem við búum við og því algjört win-win,“ sagði Lilja.

„Aðförin er stórt orð og það er verið að leika á tilfinningar fólks,“ bætti hún við.

Lilja benti á að það að skipuleggja borgir eingöngu í kringum bílaumferð leiði af sér lengri ferðavegalengd, meiri samgöngukostnað, meiri tafir í umferð og verri lýðheilsu.

Hún sagði að dagleg hreyfing almennings væri oft á tíðum skipulögð fyrir utan okkar daglega umhverfi. „Fólk keyrir kannski í 15 mínútur til þess að fara í ræktina og hlaupa þar í 40 mínútur í staðinn fyrir að reima á sig skóna og fara út að hlaupa,“ sagði Lilja og sýndi mynd þar sem sjá má hóp fólks taka rúllustiga á leið inn í líkamsræktarstöð; það á ekki að hreyfa sig neitt fyrr en þangað er komið.

Framsaga Lilju bar yfirskriftina „Zero sum hugsun í samgöngumálum - …
Framsaga Lilju bar yfirskriftina „Zero sum hugsun í samgöngumálum - þar sem ávinningur eins þýðir alltaf tap annars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarlína, sumargötur og hjólastígar

Borgarlína, sumargötur á Laugavegi og hjólastígur á Grensásvegi eru meðal verkefna sem Lilja sagði að hefðu lent í zero sum pytti. Umræðan væri orðin svarthvít í áðurnefndum verkefnum, þó hún eigi ekki að þurfa að vera þannig.

Hún nefndi dæmi um þróun og afleiðingar af orðræðu í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Þar hefur hver borgarráðsmaður neitunarvald gagnvart lagningu hjólastíga. „Mér finnst að neitunarvald eigi bara að vera eitthvað sem á heima í Sameinuðu þjóðunum eða slíku,“ sagði Lilja.

Vegna þess hafa ekki verið lagðar nema 2,5 mílur af hjólastígum þar í borg síðastliðin sex ár. Á sama tíma hafa verið lagðar 98 mílur af hjólastígum í New York. „Þú færð það sem þú skipuleggur,“ sagði Lilja.

Að lokum sagði hún að þekking og mannauður væru lykillinn að samgöngumálum og þá þyrfti að safna gögnum um alla. Reykjavíkurborg væri fremst í flokki á Íslandi í því að horfa til framtíðar en ríkisvaldið væri ekki jafn framarlega. Til að Reykjavík nái því að verða snjallborg þarf ríkisvaldið að taka þátt líka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert