Búið er að setja upp vinnupalla við kór Hallgrímskirkju í Reykjavík og eru steypuviðgerðir þar hafnar.
Jónanna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju, segir viðgerðirnar koma í framhaldi af leka- og rakavandamálum, en árin 2008 og 2009 var gert við kirkjuturninn. Árið 2016 hófust svo viðgerðir á vængjum eða álmum Hallgrímskirkju að framanverðu.
„Í tvö ár erum við búin að vera í mjög miklum viðgerðum og tókum þá í gegn norður- og suðurhlið að utanverðu. Eftir það þurfum við einnig að ráðast í viðgerðir innanhúss,“ segir Jónanna í Morgunblaðinu í dag og bætir við að í vetur hafi svo komið upp „mjög mikill“ leki í kór kirkjunnar, innan altaris.