Spólandi strætisvagnar stöðvuðu umferð

Vatnsendavegur í morgun.
Vatnsendavegur í morgun.

Spólandi strætisvagnar sem komust ekki leiðar vegna hálku ollu töfunum sem urðu á umferð um Vatnsendahverfið í Kópavogi í morgun.

Að sögn Gunnars Hilmarssonar aðalvarðstjóra tókst að greiða úr vandanum þegar starfsmenn bæjarins komu og söltuðu vegina.

Vagnarnir sátu fastir í um tuttugu mínútur við Urðarhvarf og Ögurhvarf og fyrir vikið tafðist umferðin mikið.

Spurður út í tafir annars staðar í efri byggðum Kópavogs segist Gunnar ekki hafa haft fregnir af þeim. Engin umferðaróhöpp urðu vegna hálkunnar.

Ekki byrjaðir að sekta

Gunnar segir ástandið vissulega hafa verið óvenjulegt, enda flestir komnir á sumardekk. „Ég man ekki eftir svona snjókomu í maí. Það geta alltaf komið él en þetta er svolítið sérstakt,“ segir hann.

Sekt fyrir notkun nagladekkja fjórfaldaðist um síðustu mánaðarmót, eða úr 5 þúsund krónum á dekk í 20 þúsund krónur.

Aðspurður segir Gunnar lögregluna ekki byrjaða að sekta ökumenn fyrir notkun á nagladekkjum, þrátt fyrir að hún hafi verið óheimil frá 15. apríl.

„Við erum aðeins að halda að okkur höndum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka