Viðskiptahindranir mesta ógnin

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði mikilvægast að ekki verði viðskiptahindranir í …
Guðlaugur Þór Þórðarson sagði mikilvægast að ekki verði viðskiptahindranir í Evrópu. Ljósmynd/utanríkisráðuneytið

„Ef við Íslendingar ætlum að halda uppi okkar lífskjörum eins og við viljum sjá, verðum við að auka útflutningsverðmæti okkar um einn milljarð á viku næstu tuttugu árin,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra í þættinum Þingvellir á K100 í morgun.

Guðlaugur sagði að ný efnahagsveldi væru að rísa utan Evrópu og vaxandi millistéttir þeirra ríkja mynda mikilvæga markaði til framtíðar sem Íslendingar þurfa að hafa aðgang að, ef halda ætti lífskjörum háum á Íslandi.

Samkvæmt Guðlaugi er verið að vinna að breytingum innan utanríkisþjónustunnar til þess að mæta þessum áskorunum og er það gert í samstarfi við hagsmunaðila sem hafa sýnt vilja til samstarfs.

Bretland mikilvægt markaðssvæði

Guðlaugur fullyrðir að ýmis tækifæri fylgi úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. „Bretland er okkar næstmikilvægasta viðskiptaland, okkar markmið hefur verið þetta að sjá til þess að við höfum sama markaðsaðgang og við höfum haft, helst betri, og nýta þau tækifæri þegar kemur að markmiði Breta um að vera fremstir í heimi þegar kemur að fríverslun. Það mun opna dyr fyrir EFTA-þjóðirnar sömuleiðis.“

Þó kom fram í máli ráðherrans að ýmsir þættir séu ekki vitaðir á þessu stigi. Hann nefndi að enn er Bretlandi óheimilt að semja fyrir eigin hönd þar sem ríkið er enn þá formlega hluti af Evrópusambandinu. Hann sagði það ekki ljóst hvort Ísland semji sjálft við Bretland eða með EFTA-ríkjunum og bætti við að „öll viðbrögðin sem við höfum fengið frá breskum stjórnvöldum hafa verið jákvæð.“

Það er ákveðinn vandi hjá Evrópusambandinu að það vill ekki ganga frá málum gagnvart Bretlandi með slíkum hætti að það virðist vænlegur kostur fyrir önnur ríki að ganga úr Evrópusambandinu að sögn Guðlaugs. „Það sem skiptir öllu máli er að við sjáum ekki neinar viðskiptahindranir í Evrópu á næstu árum.“

Fram kom í máli Guðlaugs að hann teldi EES-samningin hafa reynst vel, en hann hafi áhyggjur af því að grafið sé undan samningnum. Hann upplýsti að ríkistjórnin hafi ráðstafað 200 milljónir króna aukalega til þess að bæta hagsmunagæslu Íslands í EES.

Mótmæla brotum á alþjóðalögum

Spurður um ákvörðun Íslands að taka þátt í aðgerðum gegn rússneskum stjórnvöldum, segir Guðlaugur það rétta ákvörðun. „Rússar settu viðskiptabann á okkur, við settum ekkert viðskiptabann á rússneskan almenning. Refsiaðgerðirnar tengjast fyrst og fremst fólki nátengdu Pútín og fyrirtækjum, hergagnaframleiðslu og öðru slíku.“

Hann segir aðgerðirnar ætlaðar til þess að mótmæla brotum á alþjóðalögum. „Þarna var í fyrsta skipti frá seinni heimsstyrjaldar verið að breyta landamærum með vopnavaldi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert