Haförninn sem Snorri Rafnsson, betur þekktur sem Vargurinn, handsamaði í lok nóvember og hefur undanfarna mánuði verið í Húsdýragarðinum, var svæfður nú um mánaðarmótin eftir að hafa ekki náð heilsu á ný. Þetta staðfestir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, en Snorri greindi frá afdrifum fuglsins á Snapchat fyrr í dag. mbl.is ræddi við Snorra á síðasta ári eftir að hann handsamaði fuglinn, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.
Kristinn segir að haförninn hafi fyrst um sinn verið nokkuð hress og að útlitið hafi verið ágætt. Hann hafi hins vegar aldrei flögrað eða flogið og þegar reynt var að sleppa honum til að fara lengri vegalengdir hafi komið í ljós að líklega myndi hann ekki spjara sig í náttúrunni á ný.
Í apríl dró svo verulega af erninum og varð hann að sögn Kristins mjög máttlaus. „Það var ekki hægt að fara í neinar meiriháttar læknisfræðilegar aðgerðir,“ segir hann og bætir við að það hafi verið metið að hann myndi ekki bjarga sér. Með það fyrir augum var ákvörðun um að svæfa hann tekin. Aldrei hafi komið til tals að koma honum í einhverskonar langtíma athvarf eins og tíðkast stundum erlendis með veik dýr. Það hafi ekki tíðkast hér á landi.
Segir Kristinn að mögulega hafi fuglinn lent í slysi sem skýri ástand hans.
Hafernir eru nokkuð sjaldgæfir fuglar hér á landi, en þeir hafa verið alfriðaðir í áratugi. Þegar eitrað var fyrir refum hér á árum áður gekk það nokkuð nærri stofninum, en í dag telur hann 75 varppör. Tvö af hverjum þremur varppörum verpa við Breiðafjörð, en önnur pör sé meðal annars að finna á Vestfjörðum, við Húnaflóa og á nokkrum stöðum á Vesturlandi
Hvert par verpir einu eggi og stundum tveimur. Hver varpárgangur er frekar lélegur því aðeins 25-30 pör komu upp ungum á hverju ári. Ungarnir eru oft á tíðum vel fram á vetur í óðali foreldranna og segir Kristinn að algengt sé að þeir séu undir verndarvæng þeirra fram í mars.
Í tilfelli þessa hafarnar hafi hann hins vegar verið kominn langt frá heimahögunum strax í október.
Fyrsti vetur hafarna getur reynst mjög erfiður og eru töluverð afföll að sögn Kristins. Þannig hafi Náttúrufræðistofnun nýlega frétt af öðrum haferni sem fannst dauður í hólmanum þar sem hann ólst upp. Var sá örn samt sem áður orðinn fleygur.