„Þetta er bara eðlilegt skref í þessu ferli sem við erum í. Við erum að klára þann áfanga sem sveitarfélögin eru sammála um að klára. Svo eru fleiri skref framundan,“ segir Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri svæðisskipulagsnefndar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Nefndin hittist á föstudag þegar fyrir lá samþykki allra sveitarfélaga á tillögu til breytinga á svæðisskipulagi vegna samgöngu og þróunarása fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna, eða Borgarlínu. Nú er það hvers og eins sveitarfélags að fylgja breytingunum eftir í sínu aðalskipulagi.
Aðspurður hvort breytingar geti orðið á samþykktum breytingartillögum að loknum sveitarstjórnarkosninum ef flokkar andvígir Borgarlínu komast til valda, segir Hrafnkell það vera hlutverk nýrrar svæðisskipulagsnefndar, sem taki við að loknum kosningum, að meta hvort tilefni sé til endurskoðunar.
„Ein ástæða fyrir endurskoðun getur vissulega verið pólitísk stefnubreyting, en í grunninn er það þannig að aðalskiplag sveitarfélaga á að vera í samræmi við svæðisskipulag. Svæðisskipulagið er regnhlífin þar sem allir vinna saman og svo tekur hver og einn sinn geira og sníðir hann þannig að hann passi.“
Fundur svæðisskipulagsnefndar á föstudag var sá síðasta á kjörtímabilinu og að honum loknum bókaði nefndin eftirfarandi: „Svæðisskipulagsnefnd fagnar því að nú hafi verið stigið stórt skref með samþykki allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin fagnar jafnframt þeim áformum ríkisins, sem birtast í ríkisstjórnarsáttmála og fjármálaáætlun, um að hefja viðræður við sveitarfélögin í ár um samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu.“
Breytingarnar hafa verið sendar Skipulagsstofnunar til staðfestingar, en til þess hefur hún fjórar vikur.