Fulltrúar Eyktar biðu í 11 mánuði eftir því að Reykjavíkurborg afgreiddi eignaskiptalýsingu á Bríetartúni 9-11. Vegna þessa og annarra tafa verði 94 íbúðir í húsinu afhentar mun síðar en ella.
Þetta segir Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Eyktar, og bendir á að slíkum töfum fylgi mikill vaxtakostnaður. Fyrir vikið verði íbúðirnar dýrari en ella.
Í umfjöllunum mál þetta í Morgunblaðinu í dag nefnir Pétur dæmi um hindranir sem borgin hafi sett í veg uppbyggingar á Höfðatorgi. Til dæmis hafi verið gerðar strangar kröfur um sorphirðu. Þegar þeim var mætt hafi enn strangari kröfur verið gerðar. Það hafi tafið framkvæmdir við Bríetartún 9-11 um fjóra til sex mánuði.
Pétur segir einnig að það hafi tekið 11 mánuði að ganga frá eignaskiptalýsingu fyrir húsin og hún bíði enn samþykktar sýslumanns. Þetta hafi tafið mjög fyrir sölu íbúða.
Líkt og fram kom í Morgunblaðinu 28. apríl þá hafnaði umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur umsókn um gistileyfi í 38 íbúðum í nýjum íbúðaturni í Bríetartúni 9-11. Málið bíður endanlegrar afgreiðslu byggingarfulltrúa.
„Umsóknin hefur vakið athygli. Það er enda líklegt að aldrei hafi jafn margar íbúðir verið fráteknar í nýbyggingu með skammtímaleigu til ferðamanna í huga. Á vissan hátt hefði starfsemin verið framhald af Fosshótelsturninum sem er norður af íbúðaturninum á Höfðatorgi,“ sagði í frétt Morgunblaðsins.
Samkvæmt sölulista Höfðatorgs var samanlagt verð þessara 38 íbúða um tveir milljarðar króna.
Heimildir blaðsins herma að hópur fjárfesta sé að baki umsókninni og að hluti þeirra hafi boðið eigendum hótela að sjá um rekstur hótelíbúða. Mun áhuginn hafa verið mismikill.
Þá munu fjárfestar hafa horft til þess að borgaryfirvöld vilji dreifa skammtímaleigu víðar um borgina. Við Höfðatorg væru næg bílastæði.