Nýtt persónuverndarfrumvarp „á næstu dögum“

Sigríður Á. Andersen svaraði fyrirspurn um GDPR reglugerðina í dag.
Sigríður Á. Andersen svaraði fyrirspurn um GDPR reglugerðina í dag. mbl.is/Eggert

Ný persónuverndarreglugerð hefur það í för með sér að Ísland taki þátt í starfi persónuverndarstofnun Evrópu án þess að hafa atkvæðisrétt. Þetta kom fram í máli Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, á Alþingi í dag.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, spurði dómsmálaráðherra hvers vegna hefði tekið svona langan tíma að koma nýrri persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins til þingsins. Vakti hann einnig athygli á því að óheppilegt væri að ný reglugerð tæki gildi í Evrópu 25. maí og að Ísland myndi dragast eftirúr.

Sigríður svaraði því að þó svo að efni reglugerðarinnar hefði legið fyrir síðan 2016 þá hefðu íslensk stjórnvöld gert athugasemd við það að Ísland myndi taka þátt í Evrópsku persónuverndarstofnuninni án atkvæðisréttar. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að frekar yrði unnið innan tveggja stoða kerfisins.

Samkvæmt Sigríði féllst Evrópusambandið á að þátttaka Íslendinga í stofnuninni án atkvæðisréttar yrði ekki fordæmisgefandi og var yfirlýsing þess efnis gefin út. Ráðherrann sagði að þetta hefði ekki legið fyrir fyrr en um áramót og að frumvarp yrði lagt fyrir Alþingi á næstu dögum.

Þetta merkir að reglugerðin veldur því að eftirlit með innleiðingu reglugerðarinnar fellur utan tveggja stoða kerfisins, en Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra hefur áður lýst því að tregða Evrópusambandsins til þess að leggja áherslu á tveggja stoða kerfið grafi undan EES-samningnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka